Leiðtogar þjóðarinnar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, ávörpuðu þjóðina um áramót eins og venja er og töldu í hana kjark því ekki veitir af. Bæði hrósuðu landsmönnum sérstaklega fyrir samstöðu og samhygð á erfiðum tímum, sem þjóðin á svo sannarlega skilið.

Katrín þakkaði þjóðinni fyrir samstöðu í faraldrinum; að standa saman í sýnatökuröðum víða um land, styðja ættingja og vini sem hafa veikst og sameiginlega beitt ríkissjóði til þess að bæta almenningi og atvinnulífi sem best tjónið sem veirufárið hefði valdið.

Hún sagði gott að rifja upp hvað ætti að ráða för hvort sem það væri í heimsfaraldri, eldgosi eða öðrum áskorunum. „Jú, það er og á ávallt að vera almannahagur,“ sagði Katrín. „Ef það leiðarljós er á hreinu auðveldar það allt annað. Því auðvitað munu alls konar hagsmunir alltaf vera undir í öllu því sem við gerum og ekki dugar að hlusta aðeins á þá sem hæst hafa hverju sinni,“ sagði hún.

Þetta er vel mælt hjá forsætisráðherra! Vonandi ber nýja ríkisstjórnin okkar gæfu til að fara eftir þessu heilræði í stað þess að flækjast í net sérhagsmunaafla eða þeirra sem hæst hrópa.

Guðni talaði um um óttann og sína persónulegu reynslu af honum. Var það vel gert af forseta að gefa af sér með slíkum hætti og örugglega huggun fyrir marga að að vita að þeir eru ekki einir að glíma við þann erfiða förunaut. Forsetinn sagði: „Ótti er ekki alltaf ástæðulaus, því fer fjarri. Hann getur fyllt okkur brýnum krafti þegar að okkur er sótt. En hann er vondur förunautur frá degi til dags … Svo fær hann okkur jafnvel til að vera hvassyrtari en ella, stífari á okkar meiningu, tregari til að meðtaka önnur sjónarmið. Vel má vera að mörg ykkar kannist við þetta, sjálfur hef ég fundið þetta á eigin skinni.“

Guðni minnti á að þrátt fyrir að óttinn mætti ekki ná tökum á okkur yrði bjartsýni að byggjast á raunsæi. Nefndi hann sérstaklega loftslagsvána þar hann hefði nýlega lesið að ef við fyndum ekki ný heimkynni tímanlega annars staðar í Vetrarbrautinni væri úti um okkur.

Það er gott að hefja nýtt ár með því að hugleiða kjarnann í ávörpum Katrínar og Guðna. Orð beggja voru innihaldsrík, hlý og hvetjandi en samt raunsæ. Að standa saman, hugsa fyrst og fremst um almannahag, virða skoðanir og siðvenjur annarra, hlusta á vísindin og nýta þá krafta og hugvit sem mannkynið býr yfir til þess að jörðin geti verið góður og öruggur samverustaður þar sem ríkir jöfnuður og velsæld.