„Ungt fólk kallar á aðgerðir og við verðum að hlusta á þau,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á loftslagssamkundunni í Glasgow. „Við verðum að uppfæra!“ Landsmóðirin virðist þó ekki hafa hitt í mark hjá ungu kynslóðinni, sem var skiljanlegt og fyrirsjáanlegt.

„Ég er bara smá reiður ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Finnur Ricart umhverfisunglamb eftir að hafa hlýtt á ræðuna.

Sjálfsagt hefur það ekkert með innihald hennar að gera, eða umhverfismál yfir höfuð, heldur þá ævafornu reglu að miðaldra fólk er og verður alltaf hallærislegt í augum ungdómsins.

Jafnvel þó það fari í karate við Boris Johnson.

Brennu-heims saga

Enda greinilega kominn tími á uppfærslu á Boris Johnson sem sjálfum datt ekkert betra í hug í ræðu sinni en að vísa í kalda­stríðshetjuna James Bond, sem hefur jafnan verið í það minnsta einni uppfærslu á eftir samtímanum í rúma hálfa öld.

Johnson reyndi að ná tengingu með því að líkja heiminum við njósnarann fræga föstum í einhverri dómsdagsvélinni sem fjendur hans hafa sniðið honum.

Eitthvað sem eftirstríðsárabörn geta hæglega tengt við þannig að þarna missti Katrín af gullnu tækifæri til þess að lýsa heimsbyggðinni sem Skarphéðni í brennunni.