Enn einn ungur karlmaður ákvað að hlaða riffil og ganga af göflunum í verslunarmiðstöð. Sturlaður af reiði og minnimáttarkennd. Upplifir sig sjálfsagt sigraðan af heiminum – hefur engu að tapa.

Það er ekki auðvelt að segja enn einn ungur karlmaður. En nánast engir aðrir sturlast svona. Ganga inn í almannarými, skóla eða hvaða stað sem safnar fólki í blóma lífsins saman og myrða það. Í Kaupmannahöfn voru þetta meðal annars tvö sautján ára ungmenni. Þau áttu öll ævintýri lífsins eftir.

Við höfum lengi vitað að karlmennskan getur verið eitruð, ofbeldisfull og stundum jafnvel banvæn. En þessi félagslega tapaði og einangraði karlmaður sem ákveður að fórnarkostnaður hans eigin félagsþrots sé allt bjart líf sem á vegi hans verður virðist vera ein stærsta áskorun samfélaganna.

Aukið lýðræði, opnara samfélag og meiri mennska voru einkunnarorð Norðmanna í þeirra kolbrýndu martröð. Getur verið að það séu einmitt gildin sem einangra þessa menn? Getur verið að mennskara og jafnara samfélag sem menntar alla, virðir og samþykkir, hafi ýtt hópi karlmanna út á jaðarinn og aftengt áður sjálfgefin forréttindi þeirra? Á jaðrinum finna þeir svör í öfgum pólitíkur, kynræðis, þjóðernis og trúar svo eitthvað sé nefnt.

Máske geymum við hugmyndir um að þessir karlmenn tilheyri forréttindastétt sem enga aðstoð þurfi eða umfram athygli.

Kanadískur sálfræðingur einblínir á unga afskipta karlmenn og fær aðdáun þeirra og heimsathygli. Kannski þyrftum við líka að gera það í meira mæli en með einkunnarorð Norðmanna að leiðarljósi. Stíga sálfræðinginn út.