Stjórnmálasamtökin Karlalistinn voru stofnuð á degi foreldraútskúfunar hinn 25. apríl síðastliðinn til að bæta stöðu karla, feðra og barna í jafnréttisbaráttunni. Karlalistinn er jafnréttisflokkur sem reistur er út frá sjónarhorni og reynslu karlmanna, feðra og drengja. Er hann nauðsynleg viðbót við þann annars góða árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi undanfarna áratugi.

Allt til þessa tíma hefur jafnréttisbaráttan verið grundvölluð á reynslu kvenna, sem hefur vissulega þjónað sínum tilgangi. Sú áhersla kvennafræðinnar hefur hins vegar leitt til þess að hallað hefur á réttindi karla og drengja eftir því sem liðið hefur á jafnréttisbaráttuna. Nægir í því samhengi að nefna umgengnismál og umgengnistálmanir, bág fjárhagsleg og félagsleg staða umgengnisforeldra, og veik staða drengja í grunnskólum landsins.

Þegar reynsla karla er skoðuð nánar, kemur í ljós að kynbundið ofbeldi er mun flóknara fyrirbæri en femínistar og kvennafræðingar vilja almennt viðurkenna. Jafnvel þótt við viðurkennum fúslega að íslenskar konur beri af öðrum, eru inn á milli þær sem beita andlegu og líkamlegu ofbeldi í nánum samböndum í skjóli bágs réttar feðra til að umgangast börn sín eftir skilnað. Hafa ber í huga að tálmanir eru ekki aðeins vandamál karla, heldur eru þolendur slíks ofbeldis einnig mæður, ömmur, afar, frænkur, frændur og systkin, að ógleymdu skilnaðarbarninu sjálfu sem ber mestan skaðann ævilangt.

Karlalistinn vill koma á faglegri barnavernd hjá Reykjavíkurborg þar sem skipaðir eru sérfræðingar á faglegum grundvelli, en ekki eftir flokkspólitískum línum. Flokksgæðingar með takmarkaða menntun og hæfni, eiga ekki að taka ákvarðanir um örlög barna sem þurfa verndar við. Einnig viljum við að barnavernd beiti heimildum sínum til íhlutunar í meira mæli, þegar umgengnisforeldrum er tálmuð umgengni að ástæðulausu. Þar sem umgengnistálmanir eru umfangsmikill vandi telur flokkurinn að Reykjavíkurborg þurfi að kosta rekstur sérstaks athvarfs fyrir karlmenn sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum.

Um 50% umgengnisforeldra eru á vanskilaskrá samkvæmt úttektum Creditinfo. Ástæðan fyrir því er sú að feður taka almennt virkan þátt í lífum og uppeldi skilnaðarbarna, en þurfa að greiða meðlög á meðan þeir fá engar velferðarbætur sem foreldrar. Karlalistinn vill að Reykjavíkurborg komi því til leiðar að aukið tillit verði tekið til félagslegra, fjárhagslegra og heilsufarslegra aðstæðna umgengnisforeldra við innheimtur á meðlögum og meðlagsskuldum. Hafa ber í huga að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur á undanförnum árum aukið innheimtuhörku að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga, -í því skyni til að hámarka greiðslur úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga. Karlalistinn vill að auki að löggjafinn færi innheimtur meðlaga til Tryggingarstofnunar, þar sem meðlögin eru greidd út, eins og tíðkast í flestum samanburðarlöndum.

Karlalistinn vill auk þessa að félagsþjónustan komi betur á móts við umgengnisforeldra sem eiga stöðu sinnar vegna erfitt með, -eða gert ómögulegt, að taka börn sín í umgengni sökum fátæktar.

Að endingu vill Karlalistinn að Reykjavíkurborg komi betur á móts við þarfir drengja í grunnskólum borgarinnar, en rannsóknir sýna að þeim líður illa í skóla og eiga undir högg að sækja er varðar námsárangur. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að kvennafræðin hefur lagt of mikla áherslu á að drengir þurfi að breytast og aðlagast gildum kvennafræðinnar í stað þess að skólinn aðlagist þörfum drengja. Þótt það sé fagnaðarefni að stúlkum gangi vel í skóla, þarf skólakerfið engu að síður að viðurkenna eðlismun kynjanna og koma sérstaklega á móts við þarfir drengja. Af þeim sökum er Karlalistinn alfarið á móti því að kynjafræði verði kennd í grunnskólum landsins, enda er innbyggð í þá hugmyndafræði að karlkynið þurfi að aðlagast gildum kvennafræðinnar.

Karlalistinn vill stuðla að jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og teljum við að foreldrajafnrétti sé allra hagur. Sem dæmi þá sýna rannsóknir að öll skref sem tekin hafa verið í átt að foreldrajafnrétti, styrki konur á vinnumarkaði. Því má segja, að Karlalistinn sé meiri og réttlátari jafnréttishreyfing en aðrir flokkar og stjórnmálamenn sem andmæla og vinna gegn foreldrajafnrétt bæði leynt og ljóst.

Foreldrajafnrétti varðar alla karla þar sem misrétti í sifjamálum er kynbundinn vandi. Hins vegar bjóðum við konur sérstaklega velkomna í okkar raðir, sem styðja markmið flokksins.

Gunnar Kristinn Þórðarson

Höfundur er formaður Karlalistans og oddviti flokksins í Reykjavík