Eins og þau vita sem hafa gaman af því að hlaupa – eða finnst það leiðinlegt en láta sig samt hafa það – er hlaupastíll og hlaupatilgangur fólks misjafn. Í upphafi lét ég mig hafa það í heilsubótarskyni, og gat varla hlaupið kílómetra án þess að fara í andnauð. Eftir því sem ástandið skánaði fór mér, eðlilega kannski, að finnast gaman að hlaupa. Eða minna leiðinlegt. Þar sem ég get verið kappsöm jókst metnaðurinn hins vegar úr hófi fram, í takt við minnkandi andnauð. Sjálfsálitið óx í réttu hlutfalli. Einu sinni hljóp ég meira að segja hálfmaraþon, sem ég þreytist seint á að monta mig af. Kapphlaupin taka fljótar af.

Í dag erum við hins vegar öll sem eitt, íslenska þjóðin, í tæknikapphlaupi sem snýst um áframhaldandi tilvist tungumálsins okkar. Þar sem við geymum söguna, menninguna og sjálfsmyndina. Undanfarin ár hefur einstaklega öflugur hópur sérfræðinga í máltækni og gervigreind unnið þrekvirki við varðveislu tungumálsins, vinna sem aðrar þjóðir hafa klárað á 10 til 20 árum var unnin á fjórum árum á Íslandi. Enda erum við meistarar átaksverkefnanna.

Það var líka átaksverkefni að koma íslenskri máltækni í notkun í stærsta gervigreindar-mállíkani heimsins, GPT-4 sem samtalsgreindin ChatGPT byggir á. Nú er tími maraþonsins hins vegar runninn upp, við erum búin að taka magnaðan sprett en þurfum að tileinka okkur þann aga sem þarf til að klára langhlaupið. Þannig munum við ekki aðeins tryggja framtíð íslenskunnar, heldur jafnvel ryðja veginn fyrir önnur tungumál, sem vonandi geta skokkað í kjölfarið. Leyfum okkur að vera metnaðarfull.