Val á ráðgjöfum á ráðstefnur sem eiga að vera landi og þjóð til gagns hafa oft vakið furðu og spurnir komið upp um tengsl og hagsmuni bjóðenda. Hver býður og hver borgar?

Margir hafa sennilega hrokkið við þegar kanadískum embættismanni var boðið að kynna umönnunarkerfi fyrir eldri borgara Kanada og Danmerkur! (Hvar er Danmörk?).

Embættismaðurinn hefur varla verið mikið í framlínunni í umönnun. Hann hefur aldrei vitað neinn óska eftir að vilja komast á hjúkrunarheimili. Hann hefur því aldrei heyrt þakklæti gamalmennis fyrir að finna fyrir öryggi þess að vera kominn í umönnun á hjúkrunarheimili eftir erfiðar heimilis­aðstæður. Varla mun nokkur sem þekkir eitthvað til Kanada trúa því að fyrirvaralausri skyndiþjónustu verði ætíð komið við í þessu dreifbýla landi.

Eitt er þó að minnsta kosti sérstakt í kanadísku heilbrigðiskerfi eins og kom vel fram í fjölmiðlum á síðastliðnu ári. Þar geta einstaklingar fengið aðstoð við að ganga fyrir ætternisstapa.

Hver sem það kýs gerir það vissulega á sínum eigin forsendum en plássið losnar. Ekki ætla ég að vega að því að þetta hafi verið formlegt umræðuefni á ráðstefnunni en hlýtur að hafa verið öllum „óminnis­skertum“ vel kunnugt.

Ég tel að heimsókn og lofgjörð þessa einstaklings um kanadíska kerfið hafi verið óviðeigandi og smekklaus.

Ég er hneykslaður á því að hann skuli hafa náð eyrum æðstu ráðamanna þjóðarinnar.