Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þreytast þessa dagana seint á að kyrja þann söng í ræðum og viðtölum að landsmenn hafi það betra en nokkru sinni fyrr.

Í febrúar sagði Bjarni í viðtali við Fréttablaðið að mikilvægt væri að „halda til haga að staða heimilanna hafi aldrei verið betri“. Ekki hafði hann miklar áhyggjur af vaxtahækkunarkúrs Seðlabankans og taldi ekki ástæðu til að bregðast við gríðarlegum hagnaði bankanna.

Í ávarpi sínu til þjóðarinnar 17. júní síðastliðinn vitnaði Katrín í niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019–2021 og sagði orðrétt: „Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum.“

Það var heppilegt að forsætisráðherra skyldi ekki taka árið 2022 með inn í lofsöng sinn um stöðu íslenskra heimila því að þá er hætt við að dúr hefði breyst í moll.

Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa aukið greiðslubyrði meðalheimilis, sem er að koma sér upp húsnæði, um 100 þúsund krónur á mánuði. Ætli þeim heimilum sem segjast eiga í erfiðleikum með óvænt útgjöld hafi fjölgað síðasta árið?

Í Hagsjá Landsbankans um vinnumarkað sem birtist í vikunni kemur fram að verðbólgan étur upp kaupmáttinn í landinu. Ársverðbólgan í júní mældist 8,8 prósent en árshækkun launavísitölunnar var hins vegar 8,1 prósent. Kaupmátturinn er með öðrum orðum farinn að rýrna umtalsvert.

Þarna er ekki einu sinni verið að taka með í reikninginn 100 þúsund krónurnar sem heimilin þurfa að borga í aukinn vaxtakostnað í hverjum mánuði.

Áratugur kaupmáttaraukningar er að baki og nú blasir ekkert annað við almenningi í landinu en að herða sultarólina, hvað sem líður innistæðulausum fagurgala leiðtoga þessarar ríkisstjórnar sem ekki virðist ráða neitt við neitt.

Hætt er við að haustið verði kalt og vindasamt, ekki bara fyrir heimilin. Ríkisstjórn sem ekki ræður við stjórn efnahagsmála og skortir auðmýkt til að viðurkenna það, á ekki auðveldan vetur fram undan með kjarasamninga lausa í landinu.