Í grein í Fréttablaðinu 12. mars sl. varaði forstjóri Arctic Adventures við því að „órekstrarhæfum fyrirtækjum verði haldið á lífi“. Þetta passar ágætlega við málflutning hans í opnuviðtali fyrir nokkrum árum þar sem hann sagði á þá leið að lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu væru tímaskekkja.

Nú er það svo að samkvæmt eðli málsins byrja mörg ferðaþjónustufyrirtæki smátt, þar sem einstaklingar og fjölskyldur leggjast á árarnar með blóði, striti, svita og tárum til að koma metnaðarfullum fyrirtækjum á lappirnar. Sumum tókst það, aðrir berjast í bökkum, sum fyrirtækin lögðust af og einhver munu verða gjaldþrota.

Rekstur Arctic Adventures virðist hafa gróðann einan að leiðarljósi, reka reynsluboltana og ráða í staðinn erlenda, ódýra starfsmenn sem búa gjarnan við knappan aðbúnað. Einnig flutti fyrirtækið hluta af starfseminni úr landi væntanlega til að spara innlendan kostnað og gjöld. Mér vitandi hafa nýir eigendur fyrirtækisins ekki haft frumkvæði að uppbyggingu í afþreyingarferðaþjónustu þar sem leggja þarf til metnað, tíma, vinnu og hugsjón. Heldur keyptu þeir fyrirtæki sem þegar var búið að byggja upp.

Um 85% ferðaþjónustufyrirtækja eru með 10 starfsmenn eða færri, með þekkingu, reynslu og þjónustulund í farteskinu og brauðfæða þau fjölda íslenskra fjölskyldna. Þetta eru kannski fyrirtækin sem íslenska ríkið ætti að sjá sóma sinn í að aðstoða.

Eða, hvaða framtíð viljum við sjá í ferðaþjónustu á Íslandi?

Viljum við að fáein risafyrirtæki kaupi upp bransann eða viljum við fjölbreytni og grósku með fjölda fyrirtækja sem sýna raunverulegt frumkvæði og metnað?

Munum við þurfa á uppbyggingu eða afætum að halda?