Ég á góðan vin í hverfinu. Hann Kela, sem heilsar upp á mig nánast dag­lega. Við spjöllum um daginn og veginn. Jafn­vel leyfir hann mér að þusa um pólitík, þrátt fyrir ber­legt á­huga­leysi hans megin. Svo til­kynnir hann að hann sé ó­sköp svangur og vill lítið hlusta þegar honum er sagt að borða heima hjá sér. Þess í stað fæ ég ræður um að diskarnir hjá mér séu svo fínir sem geri matinn girni­legri. Fram­setning er jú allt.

Fyrsta árið bauð hann oft vinum sínum í mat hingað. Fannst til­valið þegar þeir voru úti að leika að kíkja hér við. Hann á hvort eð er heiminn. Þegar lífið er ó­þarf­lega flókið til­kynnir hann svo að hann sé fluttur til mín.

Þá þurfi hann ekki að takast á við leiðindi, eins og yngri bróður. Ég finn hann sofandi í sófanum og hef vaknað við hann í rúminu mínu. Svo er hann mun dug­legri en mínir eigin kettir að reka ó­kunna af lóðinni. Keli er auð­vitað köttur. Einn skemmti­legasti köttur sem ég hef kynnst.

Og ef ég vissi ekki að hann ætti dá­sam­legt heimili, þar sem dekrað er við hann á tá og fingri, mætti hann svo sannar­lega hjá mér búa. Þess í stað fær hann smá spjall áður en ég hendi honum út. Nú er Keli minn að flytja í annað hverfi og spjall­s­tundir okkar að líða undir lok. Því er rétt að segja bless og takk fyrir góðar stundir. Vonandi finnur þú fleiri ná­granna í nýja hverfinu sem taka á móti þér með kostum og kynjum. Þinn heimur er stærri en þetta hverfi.