Þetta byrjaði allt saman í University of British Columbia …“ Svo segir í grein sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn fimmtudag eftir Jón Baldvin Hannibalsson undir fyrirsögninni „Til varnar femínisma“. Í greininni segir Jón að svo kallaðir öfgafemínistar komi nú óorði á femínismann. „Við megum ekki láta þeim takast það,“ segir Jón. Í grein sinni segir Jón sögu af rithöfundinum Steven Galloway sem kenndi skapandi skrif við háskóla í Kanada en var sagt upp störfum þegar nemandi „sakaði hann um nauðgun“. Jón fer reyndar ekki rétt með staðreyndir í frásögninni. Kennarinn var sakaður um ýmislegt fleira og ekki er rétt eins og Jón heldur fram að „virtur hæstaréttarlögmaður“ hafi fundið Galloway „not guilty“. Málið er ekki jafn klippt og skorið og Jón lætur í veðri vaka.

En látum það liggja milli hluta. Tilefni þessa pistils er ekki að leiðrétta söguna hans Jóns. Þvert á móti vil ég þakka Jóni fyrir að láta sig varða velferð okkar femínista. Æ skal gjöf gjalda og til að launa Jóni hugulsemina vil ég segja honum sögu á móti: 

Bráðnandi ananas 

Þetta byrjaði allt saman á kvikmyndahátíðinni Sundance árið 1997 … Þekkt leikkona, Rose McGowan að nafni, er þangað komin til að kynna nýjustu kvikmynd sína. Ári áður hafði McGowan slegið í gegn í myndinni Scream sem hlaut lof gagnrýnenda og gríðarlega aðsókn.

Þegar áhrifamesti kvikmyndaframleiðandi Hollywood og yfirmaður McGowan boðar hana á fund sinn er hún upp með sér. „Ég held að líf mitt sé loks að verða auðveldara,“ segir hún þegar hún kveður myndatökumenn sjónvarpsstöðvarinnar MTV sem eru að gera um hana heimildarmynd og bankar á hurð hótelherbergis Harvey Weinstein.

Dyrnar opnast. McGowan býður aðstoðarmönnum Weinstein góðan daginn en þeir líta undan og yfirgefa herbergið. McGowan og Weinstein ræða málin. En þegar fundinum lýkur vill Weinstein ekki að hún fari. Hann vill sýna henni nuddpottinn sinn. Weinstein vísar McGowan inn á baðherbergi. Í bók sinni Brave lýsir McGowan andartakinu þegar líf hennar breytist í martröð. Weinstein gnæfir yfir henni, stór á alla kanta, grófgerður, illúðlegur með fitugt andlit þakið örum – eins og tröll, eins og bráðnandi ananas. Því næst stekkur hann á hana, rífur hana úr fötunum, lyftir henni upp og skellir henni ofan í nuddpottinn. Hann skorðar hana upp við vegg og þvingar fótleggi hennar í sundur. Sírenur glymja í höfði McGowan. „Vaknaðu, Rose. Vaknaðu.“ Það er sem hún svífi upp úr eigin líkama og horfi niður á atvikið þegar Weinstein kemur vilja sínum fram við hana.

Líf Rose McGowan varð aldrei samt. „Sorgin heltók mig,“ segir hún í bók sinni. „Kynferðislegt of beldi sviptir mann getunni til að vera manneskjan sem maður var og það stelur manneskjunni sem manni var ætlað að verða.“ 

„Réttarmorð“

 Jón Baldvin segir ásakanir í garð Steven Galloway „réttarmorð“. Í ljósi þess að engin voru réttarhöldin á Jón líklega við að Steven Galloway hafi – ef við lítum fram hjá rangfærslum Jóns um málið – orðið fyrir óréttlæti – glæp, of beldi – sem þrífst fyrir utan lögsögu dóms og laga.

Í kjölfar Sundance hátíðarinnar leitaðist Rose McGowan við að gera samskipti sín við Weinstein að máli sem varðar réttarríkið en án árangurs. Það var ekki fyrr en tuttugu árum síðar að spilaborgin féll. Níutíu konur hafa nú greint opinberlega frá kynferðislegri áreitni og of beldi af hálfu Weinstein undir formerkjum #metoo en þeirra á meðal eru Gwyneth Paltrow, Salma Hayek og Angelina Jolie.

Það skiptir ekki máli hvort við erum femínistar, and-femínistar eða öfgafemínistar; flest getum við sammælst um að eitt „réttarmorð“ er einu „réttarmorði“ of mikið. En af því hlýtur að leiða að níutíu réttarmorð eru líka of mikið. Það sama gildir um tuttugu og þrjú.