Kveðja 11. nóvember,

opið bréf til rektors HÍ.

Núna er hádegi á virkum degi og ég ætti að vera í fyrirlestri, að sinna mínu háskólanámi. Það hef ég hins vegar hvorki rými né aðstöðu til að gera með góðu móti, þökk sé því hversu illa hefur verið staðið að jafnréttismálum innan Háskóla Íslands seinustu ár. Háskólinn er duglegur að halda jafnréttisdaga og minna á að jafnrétti sé meðal grunngilda stofnunarinnar en á sama tíma breytist lítið sem ekkert í þeim málaflokkum sem snerta mörg okkar. Því er vert að spyrja, stendur skólinn í raun með minnihlutahópum og jafnrétti allra? Eða er jafnrétti háskólans eingöngu ætlað ákveðnu fólki? Lítum hér á stöðu hinsegin fólks.

Háskólinn er jú óumdeilanlega fyrst og fremst menntastofnun, og byggð fyrir nemendur, þar með talið hinsegin nemendur. Ummæli þín á Vísi í síðustu viku sýndu svart á hvítu hversu aftengdur þú ert okkar málefnum og raunverulegum þörfum okkar. Þar talaðir þú ekki einungis niður til okkar nemendanna sem höfum verið að vinna hörðum höndum að því að mynda öruggt umhverfi fyrir öll innan Háskólans, heldur gerðir lítið úr þörfum okkar. Að segja svo að jafnrétti sé eitt grunngilda Háskólans er ekki einungis rangt, heldur stráir líka salti í sárin.

Förum yfir jafnréttisstöðu hinsegin fólks sem gildir innan háskólans eins og hann er í dag:

1. Lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi 2019. Í þeim var gefinn frestur til þess að opinberar stofnanir gerðu ráð fyrir kynsegin fólki í skráningum sínum til áramóta 2020, en skv. 6. gr. 2. mgr. er opinberum stofnunum skylt að hafa slíkt. Þrátt fyrir útrunninn frest, mikinn þrýsting frá jafnréttisnefndum skólans og áminningum frá Samtökunum 78 hefur skólinn enn ekki boðið upp á slíkan valkost í skráningum sínum eða á vef Uglunnar.

2. Dæmi eru um það að nemendaskrá hafi neitað að gefa út ný prófskírteini fyrir trans fólk sem hefur breytt nafni sínu eftir útskrift. Nemendaskrá framfylgdi þannig ekki 4 gr. 3 mgr. í lögum um kynrænt sjálfræði en ekkert var gert í því máli að hálfu Háskólans, heldur kom það aftur í hendur utanaðkomandi baráttufólks að þeim lögum væri fylgt.

3. Hinseginfræðsla, sem og önnur jafnréttisfræðsla, integral partur af flestu skólastarfi sem fram fer á öðrum skólastigum landsins, hefur fengið að sitja svo rækilega á hakanum fyrir starfsfólk HÍ að sum þeirra gera sér vart grein fyrir því að jafnrétti nái út fyrir launamun karla og kvenna.

4. Innan skrifstofu rektors starfa tveir jafnréttisfulltrúar. Þetta eru góðir menn með miklar hugsjónir en þeir hafa í raun engin eiginleg völd til þess að framfylgja þeim breytingum sem þarf að gera.

5. Starfsumhverfið innan ákveðinna deilda skólans býður engan veginn upp á að hinsegin starfsfólki geti liðið vel, hvað þá nemendum, enda starfsandinn sumstaðar lítið breyst síðan fréttnæmt var að konur gengju í buxum.

6. Klósettin. Hvar skal nú byrja? Best er að benda á grein sem Q félag hinsegin stúdenta skrifaði á Vísi, Svar við um­mælum rektors um ó­kyn­greind salerni í HÍ, þar sem sagan af því máli er rakin.

Rektor og aðrir fulltrúar eru eflaust með afsakanir fyrir þessum punktum á tungubroddinum, en ég kæri mig því miður ekki um þær. Ég hef heyrt þær allar fyrr, og þær eru flestar ekki meira en svo: afsakanir. Afsakanir á misrétti sem væri vel hægt að laga ef raunverulegur vilji væri til staðar hjá því fólki sem fer með völdin innan háskólans. Við nemendur erum tilbúin að mynda háskólasamfélag opið öllum, en eruð þið það? Getur þú með góðu móti fullyrt að eitt grunngilda háskólans sé jafnrétti, ef hlutir halda áfram á sömu braut?

Svo við setjum þetta í stærra samhengi: Með því einu að birta þetta bréf opinberlega er ég að opna mig fyrir mikið meiri gagnrýni en þú munt fá, aðkasti nettrölla og starfsmanna skólans, svo eitthvað sé nefnt. En ég taldi ekki að þú myndir taka nokkurt mark á þessu nema þetta væri á opinberum grundvelli, þar sem ég og fleiri höfum verið að gagnrýna þessa hluti innan háskólans árum saman án árangurs. Því erum við hér, bæði í skotlínunni. En til þess að enda þennan póst á sem vinalegustu nótum endurtek ég orð þín frá eigin helgarkveðju:

„Stöndum saman, hugum hvert að öðru og að okkur sjálfum.“