Skoðun

Kæra ríkisstjórn, ég hef líka áhyggjur!

Síðastliðinn föstudag birtist innsend grein á vef Fréttablaðsins frá Önnu Sigríði Vernharðsdóttur yfirljósmóður á fæðingarvakt Landspítala þar sem hún lýsir áhyggjum sínum af stöðu kjaramála ljósmæðra. Ljósmæður á Landspítala eru um 150 og nú hafa 19 ljósmæður sagt starfi sínu lausu á Landspítala vegna kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Sagan segir okkur að stórt skarð hafi verið hoggið í starfsmannahópinn og ekki er útséð með enn frekara brottfall úr stéttinni, leysist deilan ekki sem fyrst á farsælan hátt og til sátta fyrir ljósmæður landsins.

Kæra ríkisstjórn, ég hef líka áhyggjur!

Keðja fæðingarþjónustu Landspítalans eru fjórir hlekkir. Það er göngudeild mæðraverndar og fósturgreining, meðgöngu- og sængurlegudeild, fæðingarvakt og Vökudeild (gjörgæsla nýbura). Fæðingarþjónustan á Landspítala hefur ákveðna sérstöðu þar sem aðgengi er að sérhæfðum teymum fyrir barnshafandi konur sem eru með eða fá áhættuþætti tengda barneignaferlinu. Fæðingarþjónusta á Landspítala er alltaf opin, allan sólarhringinn, 365 daga á ári. Fæðingarþjónusta Landspítala vinnur í nánu samstarfi við ljósmæður og annað fagfólk á landinu öllu og í þágu fjölskyldna landsins. 

Á göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningu starfa um 30 ljósmæður með víðtæka reynslu og sértæka menntun. Komur á deildina eru um 20 þúsund á ári hverju. Stærsti hluti fósturgreiningar á landinu fer fram á fósturgreiningardeildinni og er göngudeild mæðraverndar önnur af tveimur göngudeildum sérhæfðrar mæðraverndar á landinu fyrir konur með áhættuþætti á meðgöngu. Mannauður deildarinnar er einstakur. Ómskoðun á meðgöngu er að mestum hluta í höndum sérhæfðra ljósmæðra. Ljósmæðra sem hafa bætt við sig árs starfsnámi ofan á 6 ára háskólanám . Árlega þurfa þær að taka próf til að viðhalda réttindum sínum með því að senda myndir til viðurkenndra erlendra matsaðila. Til að starfa við sérhæft eftirlit á meðgöngu þurfa ljósmæður að sérhæfa sig sérstaklega í ákveðnum áhættuhópum. Fjórar sérfræðiljósmæður starfa á deildinni. Sérfræðiljósmæður hafa  bætt við sig 1-2ja ára meistaranámi auk 2ja ára starfsnámi til að geta sótt um sérfræðiviðurkenningu. Það tekur því allt að tíu ár í sérhæfðu háskóla- og starfsnámi til að fá leyfi til að starfa sem sérfræðiljósmóðir. Aðrar ljósmæður deildarinnar hafa víðtæka reynsluþekkingu og/eða hafa bætt við sig framhaldsnámi á háskólastigi.

Metnaður ljósmæðra deildarinnar og ábyrgð er gríðarlega mikil. Þær styðja við eðlilegt barneignaferli samhliða greiningu og meðferð á flóknum sjúkdómum og áhættuþáttum í öflugum teymum.

Staðan í ljósmæðradeilunni var rædd á Alþingi mánudaginn 9. apríl síðastliðinn. Þar segir hæstvirtur heilbrigðisráðherra réttilega að launalækkun ljósmæðra sé vegna þess að ljósmæður skipti um stéttarfélag þegar þær hefja störf sem ljósmæður. Hún segir einnig að það sé ekki verkefni stjórnvalda að hafa skoðanir á slíku fyrirkomulagi. En er það ekki verkefni stjórnvalda að sjá til þess að félagsmenn 99 ára gamals fagfélags þar sem eingöngu eru konur uppskeri laun erfiðis? Á þessi hreina kvennastétt að taka á sig launskerðingu því þær velja að flytja sig úr Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í Ljósmæðrafélag Íslands að námi loknu. Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað 1919 og slær hjarta margra ljósmæðra með þessu gamla og sögulega félagi. Kennsla í ljósmóðurfræði hófst á Íslandi árið 1761. Fagkennsla fyrir konur sem hlúa að konum og fjölskyldum þeirra í barneignaferlinu er því 257 ára hér á landi.

Í alvöru talað, erum við ekki lengra komin í jafnrétti til launa árið 2018?

Kæra ríkisstjórn, ég hvet ykkur til að láta verkin tala og fylgja eftir stjórnarsáttmála ykkar þar sem fram kemur að unnið verði að kynbundnum launamun og skapa eftirsóknaverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það er ákveðin ljómi yfir ljósmóðurstarfinu, það er yndislegt og gefandi hvort sem litið er til gleði- eða sorgarstunda. Stöndum vörð um okkar frábæru barneignarþjónustu og greiðum laun í samræmi við ábyrgð. Gerum ljósmæðrastarfið enn eftirsóknarverðara með því að skapa starfsumhverfi sem býður upp á hæfilegt álag. Nýtum okkur þekkingu ljósmæðra á öllum sviðum, þjóðinni til heilla. Kærleikur í starfi brauðfæðir ekki fjölskyldur ljósmæðra.

Ingibjörg Thomsen Hreiðarsdóttir 

yfirljósmóðir göngudeildar mæðraverndar og fósturgreiningu 
Landspítala

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Fjölgun hjúkrunar­fræði­nema við HA
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir

Skoðun

Breytt klukka – betri líðan
Erla Björnsdóttir

Skoðun

Að breyta í verki
Sandra Hlíf Ocares

Auglýsing

Nýjast

Tækifærin í ferðaþjónustu
Arnheiður Jóhannsdóttir

Um gildar „ástæður“ gyðingaofsókna og Vísindavef Háskóla Íslands
Lára Magnúsardóttir

Skrifaðu veggjöld
Hanna Katrín Friðriksson

Sannleikurinn um elstu konuna
Þorbjörg Gunnlaugsdóttir

Hnípin þjóð
Kolbrún Bergþórsdóttir

Frá Brexit til Íslands
Þorvaldur Gylfason

Auglýsing