Skoðun

Kæra ríkisstjórn, ég hef áhyggjur!

Ljósmæðrastéttin á Íslandi er kvennastétt. Konur sem sinna fyrst og fremst konum og börnum. Okkar starf er mikilvægt og við berum mjög mikla ábyrgð. Held að allir séu sammála um það. Ljósmæður starfa mjög sjálfstætt og bera ábyrgð á lífi og heilsu barnshafandi kvenna, ófæddum börnum þeirra, nýfæddum börnum þeirra og svo nýbökuðum mæðrum. Við vinnum í góðri samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir og leitum til þeirra eftir þörfum.

Enn hafa ekki náðst samningar milli Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Ég hef áhyggjur. Samningar þurfa að nást og það þurfa að vera samningar sem ljósmæður eru sáttar við.

Það er hætt við miklu brottfalli úr ljósmæðrastéttinni á næstunni ef ekki nást ásættanlegir samningar. Þegar ekki fást ljósmæður til starfa verður enn meira álag á þeim sem ákveða að starfa áfram. Þær þurfa að hlaupa hraðar, hugsa hraðar, vinna meira. Þá er hætta á því að sú gæðaþjónusta og sá góði árangur sem við höfum náð sé í hættu. Enn fleiri ljósmæður munu hverfa til annarra starfa. Ég hef áhyggjur.

Það eru reyndar ekki bara lág laun sem ljósmæður eru langþreyttar á. Ljósmæður eru líka langþreyttar á miklu álagi í vinnu og truflun í sínum frítíma. Á fæðingarvakt Landspítalans, stærstu fæðingardeild landsins, starfa rúmlega 60 ljósmæður. Þar eru um 3.000 fæðingar á hverju ári. Það hefur því miður ekki verið skilningur ráðamanna þjóðarinnar á því að manna þurfi deild eins og fæðingarvaktina þannig að við getum alltaf verið tilbúnar að sinna öllum sem til okkar leita. Það gerist allt of oft að álagið er það mikið að öryggi skjólstæðinga verður ekki tryggt nema ljósmóðir í vaktafríi komi til hjálpar. Það er þá eins gott að einhver komist. Þetta hefur reddast hingað til með einstakri góðmennsku ljósmæðra deildarinnar. 

En nú fer róðurinn að þyngjast. Ljósmæður eru orðnar langþreyttar á skilningsleysi ráðamanna á að greiða þurfi sanngjörn laun fyrir þetta mikilvæga og ábyrgðamikla starf og eru að hverfa til annarra starfa. Nú þegar hafa 6 ljósmæður á fæðingarvakt Landspítala sagt um störfum sínum og munu að öllu óbreyttu hætta störfum á deildinni 1. júlí. Þetta eru allt mjög reyndar og færar ljósmæður, 5 þeirra eru í hópi vaktstjóra deildarinnar og þeirra skarð er ómögulegt að fylla á þessum tíma. Hlutverk vaktstjóra á fæðingarvaktinni felst m.a. í því að veita óreyndari ljósmæðrum stuðning og ráðgjöf. 

Sumarið er tíminn þegar hlutfallslega fleiri óreyndar ljósmæður er að störfum og því enn mikilvægara að reyndar ljósmæður og reyndir vaktstjórar séu til staðar. Sumarið er tíminn þegar flest börn fæðast. Sumarið er tíminn þegar álag á Landspítala eykst vegna þess að aðrar stofnanir draga úr starfsemi. Vaktstjórar gegna lykilhlutverki þegar bráðatilvik koma upp og þar skiptir reynslan miklu máli. Hlutverk vaktstjóra er einnig að útdeila verkefnum og tryggja mönnun á næstu vakt. Það verður ekki auðvelt eftir 1. júlí.

Kæra ríkisstjórn!

Nú er góðæri og þið hafið tækifæri til að láta verkin tala.

  • Í stjórnarsáttmála ykkar kemur fram að unnið verði gegn kynbundnum launamun en samninganefnd ríkisins virðist ekki hafa umboð til að vinna að þessu fyrir ykkar hönd. Eða hvað?
  • Í stjórnarsáttmála ykkar kemur fram að skapa eigi eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það er ljómi yfir ljósmóðurstarfinu. Yndislegt og gefandi starf. En er það eftirsóknarvert er að geta varla framfleytt fjölskyldu af laununum sem bjóðast? Er það eftirsóknarvert er að vinna stöðugt undir það miklu álagi að það hafi mögulega neikvæð áhrif á heilsuna?
  • Í stjórnarsáttmála ykkar kemur fram að fullvinna eigi heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. Það er ykkur til að sóma að hafa sett þetta verkefni á dagskrá og það verður spennandi að fylgjast með því. Það mun væntanlega koma í ljós í þessari vinnu að störf ljósmæðra eru bæði hagkvæm fyrir þjóðarbúið og heilsu þjóðarinnar, jafnvel þó að greidd væru góð laun fyrir störfin. Það verður því mikilvægt að tryggja nægan fjölda starfandi ljósmæðra á næstu áratugum, þjóðinni til heilla. Ljósmæður geta gert meira en þær gera í dag og sennilega á hagkvæmari hátt en gert er í dag.
  • Í stjórnarsáttmála ykkar kemur fram að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Barneignarþjónustan á Íslandi er á heimsmælikvarða og það endurspeglast í góðu heilsufari nýbura og mæðra. Samkvæmt nýlegri skýrslu UNICEF er öruggast að fæðast í Japan, næst öruggast á Íslandi. Íslenskar ljósmæður eiga mjög stóran þátt í þessari góðu útkomu. Við erum vel menntaðar og vel undir það búnar að sinna okkar starfi. Vinnan okkar er áhugaverð, krefjandi, skemmtileg og gefandi en við fáum alls ekki sanngjörn laun fyrir okkar vinnu. Af hverju ekki?

Stöndum vörð um okkar frábæru barneignarþjónustu með því að greiða laun í samræmi við ábyrgð og gerum ljósmóðurstarfið enn eftirsóknarverðara með því að skapa starfsumhverfi sem býður upp á hæfilegt álag. Nýtum okkur þekkingu ljósmæðra á öllum sviðum, þjóðinni til heilla. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Nekt í banka
Kolbrún Bergþórsdóttir

Fastir pennar

Að vera einn, án annarra
Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Brynjólfsson

Klám
Guðmundur Brynjólfsson

Auglýsing

Nýjast

Drögum úr ójöfnuði
Sonja Ýr Þorbergsdóttir

„Ég er nóg“
Óttar Guðmundsson

Þriggja metra skítaskán
Sif Sigmarsdóttir

Lýst er eftir leiðtoga
Kristín Þorsteinsdóttir

Er um­ræðan um klukku­stillingu á villi­götum?
Gunnlaugur Björnsson

Nóg hvað?
Þórarinn Þórarinsson

Auglýsing