Þú skrifar yfirlýsingu með undirskriftalista mér til höfuðs í anda mannréttindanna hinna nýju eins og ég kýs að kalla það. Samkvæmt þeim réttindum hafa konur öðlast svigrúm utan ‘leikreglna’ samfélagsins en karlmenn tapað rétti sínum til að bera hönd yfir höfuð sér – í það minnsta á meðan á byltingunni stendur. Tölum tæpitungulaust um kjarna málsins. Styrinn stendur um leikreglur samfélagsins eða siðferðisleg prinsipp, því við erum að öðru leyti sammála.

Samkvæmt leikreglunum nýju má ekki gagnrýna konur en það má segja hvað sem er um karlmenn og bera á þá sakir. Ef konur ætla að setjast í dómarasæti eins og Kristín Eysteinsdóttir gerði, utan reglna samfélagsins, stöndum við frammi fyrir mun stærri vanda og ófyrirsjáanlegum skaða. Að gera því skóna að einhver sé afbrotamaður að óathuguðu máli og breiða það út er líka að setja sig í dómarasæti.

Leikreglur samfélagsins eru lög og réttarkerfi landsins sem við höfum sammælst um að sé það vegakerfi sem okkur er skylt að aka eftir. Ef þessar reglur eru ekki í heiðri hafðar mun allt fara til andskotans. Hins vegar er hægt að knýja fram breytingar á réttarkerfinu; um það eru mýmörg dæmi.

Svo það sé sagt. Allir sem verða fyrir kynferðisofbeldi eiga skýlausan rétt á því að á þá sé hlustað og að sá sem ofbeldinu beitir sé sóttur til saka. Ég hef aldrei haldið öðru fram svo í guðanna bænum ekki gera mér annað upp. Þeir sem eru fullorðnir og verða fyrir kynferðisofbeldi bera áfram ábyrgð á sjálfum sér þrátt fyrir að á þeim hafi verið brotið og það er þeirra að sækja rétt sinn og samfélagsins að styðja þá og það gerir samfélagið sannarlega mun betur nú en það gerði bara fyrir nokkrum árum. Þökk sé öllum þeim frumherjum sem tekið hafa slaginn samfélaginu til heilla.

Þolendur standi með sjálfum sér

Mörg dæmi eru um að réttarkerfið taki skammarlega á móti fórnarlömbum kynferðisofbeldis. En það er aðeins með því að setja þrýsting á kerfið sem við náum eyrum dómstóla og viðurlög við kynferðisglæpum verða þyngd. Þess vegna verðum við að hvetja alla þá sem beittir eru ofbeldi að standa með sjálfum sér og kæra. Ég er að hvetja fórnarlömb kynferðisofbeldis til að sýna hugrekki.

Við getum ekki krafist réttarfarslegra umbóta ef við knýjum þær ekki fram og ef viðkvæðið „þessi mál fá aldrei viðunandi afgreiðslu, orð okkar eru alltaf dregin í efa og þess vegna kærum við ekki “ halda áfram að heyrast. Þjáningaveginn verður að ganga þangað til að fólki finnst það sjálfsagt mál að leita réttar síns. Þarna eru engar auðveldar flýtileiðir í boði. Hér stendur hnífurinn í kúnni.

Það er á ábyrgð þeirra sem fara með mál brotaþola að veita þeim ekki aðeins áheyrn, skilning og samúð heldur efla þau til dáða og styðja þau til að leita réttar síns. Ef fólk eins og þú og aðrir sem starfa með brotaþolum eruð þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að Atla var sagt upp störfum vegna þess að á hann voru bornar að því er virðist alvarlegar sakir án þess að hann fengi uppgefnar sakargiftir, er ég ykkur einfaldlega ósammála. Ef ykkur finnst eðlilegt að það sé réttað utan ‘leikreglna’ samfélagsins eins og gerðist þegar Atla var sagt upp störfum hef ég verulegar áhyggjur af því að þið séuð ekki starfi ykkar vaxin.

Siðferðisleg gildi eiga í vök að verjast, við sjáum birtingarmyndir þess alls staðar. Þjóðarleiðtogar hunsa lög og leyfa sér hatursorðræðu sem engum hefði dottið í hug að væri boðlegt. Þetta er síst til eftirbreytni og sendir alvarleg skilaboð til almennings um boðlega hegðun.

Umræða sem sundrar

Umræða um kynferðisbrot hefur farið út um víðan völl á síðustu árum og unglingar vita oft ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, því ofbeldi er orðið svo teygjanlegt hugtak og alla vanlíðan sem tengja má samskiptum kynjanna er nú leyfilegt að kalla ofbeldi. Það er ótækt. Ungir drengir eiga undir högg að sækja því það er stundum alveg sama hvernig þeir snúa sér í samskiptum við hitt kynið, þeir geta alltaf átt von á að það verði eftir á útskýrt sem ofbeldi vegna þess að orðið ofbeldi er algjörlega gengisfallið og getur nú þýtt nánast hvað sem er: návist, snerting, raddblær, augnaráð og allt rófið til hrottalegrar misbeitingar. Það hefur orðið mikil aukning á því að ungir drengir séu bornir þungum sökum að ósekju og það er ekkert réttlætanlegt við það. Að kalla það nauðsynlegan fórnarkostnað byltinga er bara ógeðslegt. Stúlkur eru einnig í vanda því að sumar fyrirmyndir, eins og Þórdís Elva, boða að ef þær upplifa eitthvað óþægilegt í samskiptum kynjanna þá skuli það heita ofbeldi og þær eigi heimtingu á að heimurinn skilgreini það líka sem ofbeldi. Að innræta slíkt hugarfar mun í lengdina mynda gjá á milli kynja, auka hatursorðræðu og sundra fólki á tímum þar sem nauðsynlegt er að fólk standi saman til þess að heimurinn sé áfram byggilegur.

Um muninn á gagnrýni og ofbeldi

Hvað varðar gagnrýni mína á Þórdísi Elvu, þá er rétt að ég gagnrýni hana harðlega í grein minni. Þú segir mig keppa í ofbeldi og sigra þá ofbeldiskeppni. Það sem ég gerði var að gagnrýna vinnuaðferðir hennar og framgöngu. Ef þú sérð ekki muninn á gagnrýni og ofbeldi tölum við tæpast sama tungumálið.

Það skiptir ekki nokkru einasta máli hvort mér finnst saga Þórdísar Elvu og Tom Stranger ótrúverðug eða sannfærandi, eða hvort mér finnst að bók Þórdísar, Handan fyrirgefningarinnar, hefði frekar átt að bera annan titil. Um það var ég ekki að skrifa í grein minni. Hún á næga aðdáendur og þarf ekki á minni velþóknun að halda. Ég minnist hins vegar ekki einu orði á að ég dragi upplifun Þórdísar í efa þótt þér henti að leggja svo út af orðum mínum og gera það að megininntaki greinar þinnar, því þú vilt ekki ræða aðalatriðið sem um ræðir, og ég spyr mig hvaða prinsipp hefur sá sem neitar að ræða grundvallaratriðin?

Ég skal vera eins skýrmælt og mér er unnt. Mér hugnast ekki að kalla Tom Stranger, fyrrum unnusta Þórdísar Elvu, nauðgara þótt hann gangist við því sjálfur. Ekki fremur en ég myndi nefna þjófóttan krakka þjóf langt fram á fullorðinsár. Þau voru bæði barnung þegar þetta gerðist og ég hef samúð með þeim báðum, henni 16 ára og honum 18 ára gömlum. Það er flókið að vera unglingur. Ég gagnrýndi það markaðstækifæri sem hún sá í upplifun sinni, þá fullorðin kona og framsetninguna alla. Mér finnst það lýsa ótrúlegri grimmd. Við Þórdís lítum fyrirgefninguna ólíkum augum.

Mynd Þórdísar langt frá veruleikanum

Ég fer ekkert ofan af því að mér finnst hún hafa skaðað og skælt umræðu um kynferðisbrotamál á Íslandi og gert alveg heilmikið ógagn. Nú síðast í heimi sviðslistafólks þar sem hún leikstýrði á mjög svo ólýðræðislegan hátt framvindu af hörku í #Metoo og alls ekki í þökk allra sviðslistakvenna, þó þær því miður vilji fæstar tjá sig um það opinberlega.

Það er heldur ekki alls kostar rétt að Þórdís Elva hafi verið beðin fyrir hönd sviðslistakvenna að leiða #Metoo hóp þeirra. Og þess vegna kalla ég hana sjálfskipaðan talsmann fórnarlamba ofbeldis þegar #Metoo er annars vegar. Hún tók sér þá stöðu sjálf með fulltingi háværra aðdáenda sinna sem hún þáði greiðslur frá til að kosta ferðir hennar til landsins vegna #Metoo en langt frá því með velþóknun allra. Margar úr röðum sviðslistakvenna töldu heillavænlegra og miklu eðlilegra að sá talsmaður kæmi úr hópi starfandi sviðslistafólks en það getur Þórdís tæplega talist þrátt fyrir að hafa á stundum starfað við sviðslistir. Þórdís hefur mestan part ævi sinnar haft atvinnu sína af markaðssetningu á vitundarvakningum ýmiskonar sem tengjast kynferðisofbeldi. Og til að fyrirbyggja misskilning sem er ær og kýr glundroðaskapara er ég síst að gera því skóna að ég hefði verið góður fulltrúi til þess verks.

Sú mynd sem Þórdís hefur málað af ofbeldisfullum heimi sviðslistafólks er langt frá þeim veruleika sem fólkið sem þar starfar þekkir. Sviðslistafólk hefur orðið fyrir ofbeldi á vinnustöðum sínum eins og því miður fólk í öllum starfsstéttum, ég er ekki að draga það í efa, en að íslenskur listaheimur sé eitthvað á pari við þann veruleika sem konur búa við í Hollywood er fjarstæða.

Þórdís Elva leikstýrði lokuðu spjalli #Metoo sviðslistakvenna, ýtti undir hræðslu og heift ef það hentaði en lék móðurlegan umvandara ef hún var hrædd um að missa tökin á hjörðinni. Hún setti reglur um hvernig væri rétt að tala um hlutina og setti vingjarnlega ofan í við þá sem voru henni ósammála. Endurskilgreindi endurtekið fyrir þeim sem hlýddu ekki fyrirmælum hennar hvernig þeir hefðu rangt fyrir sér en hún rétt, því hún væri jú sérfræðingur í ofbeldi, og setti reglur með fulltingi aðdáenda sinna. Slíkir einræðistilburðir lýsa drottnunargirni á háu stigi og eru mér ekki að skapi. Leiðtogadýrkun af því tagi sem skapast í kringum Þórdísi Elvu er stórvarasöm. Þórdís kyndir að mínu mati undir stríð, kynjastríð sem leysir engan vanda en hún getur svo persónulega hagnast á.

Hefndin skammgóður vermir

Mál Atla Rafns er harmleikur fyrir alla málsaðila og kannski ekki síst fyrir þá aðila sem undan honum kvörtuðu. Þú vinnur með brotaþolum Bentína, og fleiri ykkar sem undir ályktunina skrifa, og þið vitið að viðurkenning á því að á þér hafi verið brotið, frá þeim sem braut á þér, er líklegust til að bæta þann skaða sem ofbeldið veldur. Að treysta einhverjum fyrir því er vissulega fyrsta skrefið, að sjá viðkomandi refsað eins og í tilfelli Atla, að honum sé sagt upp störfum er kannski stundarlausn fyrir einhverja, en hefndin er skammgóður vermir og bætir ekki hjartasár þess sem brotið var á. Því er það nauðsynlegt fyrir heill þeirra sem í hlut eiga, ef Atli gerðist brotlegur með háttsemi sinni, að hann viðurkenni brot sín gagnvart þeim sem undan honum kvörtuðu. Að sama skapi væri það til gæfu og betrunar fyrir Atla Rafn að vita hvers eðlis meint brot hans eru.

Ekkert hefur áunnist með baráttu fyrir úrlausnum í kynferðisbrotamálum ef við höfum ekki þokast lengra en svo að við pískrum enn í hornum og viðhöldum sjálf þöggun um glæpi. Og við höfum tapað áttum ef okkur finnst það nú vera réttur okkar að þegja um ofbeldi og leita ekki réttar okkar þar sem það á við samkvæmt reglum samfélagsins um meðferð sakamála. Og við erum glötuð ef við fylgjum ekki leikreglum um sanngirni öllum til handa.