Í Markaðnum þann 29. apríl sl. birtist grein undir yfirskriftinni: „Er séreign ekki lengur fyrir efri árin?“. Greinina skrifaði Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka. Greinin lét lítið yfir sér og hefur að mér vitandi ekki fengið frekari umfjöllun en í henni veltir höfundur fyrir sér upphaflegu hlutverki séreignarsparnaðar og hvernig það fór fram hjá honum þegar það var ákveðið að gera breytingar á því meginhlutverki séreignarsparnaðar að bæta okkur upp fyrirsjáanlegt tekjutap sem flestir verða fyrir við starfslok. Má lesa úr greininni að tilefnið fyrir skrifunum sé það að núna í fjórða sinn frá efnahagshruni 2008 eru gerðar breytingar á séreignarsparnaði sem eru andstæðar megintilgangi sparnaðarins, þ.e. að bæta okkur upp tekjutap við starfslok.

Þó greinin láti eins og áður segir ekki mikið yfir sér er efni hennar gríðarlega mikilvægt og full ástæða til að taka undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Lífeyrissparnaður er ólíkur öllum öðrum sparnaði hvað það varðar að þegar við höfum tekið ákvörðun um að leggja hann fyrir verður ekki aftur snúið og ekki gert ráð fyrir að við höfum aðgang að þeim fjármunum fyrr en við náum að minnsta kosti 60 ára aldri. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og tökum ekki alltaf ákvarðanir sem eru skynsamlegar út frá langtímasjónarmiðum. Það getur í einhverjum tilvikum verið freistandi að seilast í þessa sjóði ef við fáum tækifæri til þess og mörg okkar hafa nýtt sér það og þar með skert hugsanlega fjárhagsleg og nauðsynleg lífsgæði okkar við starfslok. Nú er sá þáttur sem skiptir mestu máli varðandi ávöxtun lífeyrissparnaðar, tími, og ef klippt er á þann þátt með fyrirfram úttektum skerðast verulega möguleikar til að bæta upp fyrir úttektirnar á síðari tímum.

Í þeim aðgerðapakka sem ríkið kynnti í marsmánuði í kjölfar COVID-19 var aðgerð til að vernda fólk við núverandi aðstæður og fólst í úttekt séreignarsparnaðar til frjálsra nota. Áður hafði verið leyfileg úttekt séreignarsparnaðar til nokkurra ára um greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Úttekt séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar er annars eðlis en úttekt með frjálsri notkun. Eitt er neysla og annað er eignamyndun með niðurgreiðslu skulda, enda mun lægri skuldsetning vegna húsnæðislána koma sér vel allt til eldri ára. Þegar við erum ung og að sverfir getum við oft unnið meira til skamms tíma en þegar við erum orðin eldri þá eru tækifæri til tekjuöflunar minni eða jafnvel farin.

Ríkisstjórnin verður að huga að tilgangi og markmiði séreignarsparnaðar og gæta þess að þeir fjármunir sem lagðir eru fyrir í séreignarsparnað fari ekki í neyslu nema fokið sé í öll önnur skjól. Það þarf jafnframt að vera alveg skýrt að ekki er hægt að telja þá fjármuni sem gert er heimilt að taka út úr séreignarsparnaði með framlögum ríkisins. Þessir fjármunir eru eign sjóðsfélaga og ríkissjóður má alls ekki nýta þessa fjármuni eins og um eigin fjármuni sé að ræða og draga úr eigin útgjöldum ríkissjóðs á móti.

Ríkisstjórnin verður að huga að tilgangi og markmiði séreignarsparnaðar og gæta þess að þeir fjármunir sem lagðir eru fyrir í séreignarsparnað fari ekki í neyslu nema fokið sé í öll önnur skjól.

Fréttablaðið kannaði í seinustu viku hjá lífeyrissjóðunum hver væri staðan varðandi nýtingu úrræðisins og sem betur fer virðast hlutfallslega fáir vera að nýta sér það en samkvæmt framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða virðast það helst vera þeir sem lítið eiga í sjóðunum sem eru að taka út. Verði það niðurstaðan þarf enn frekar að vara við því að við hugsanleg framtíðaráföll í samfélaginu að opnað verði á nýjan leik fyrir frjálsa úttekt séreignarsparnaðar. Sú ráðstöfun getur skert með óafturkræfum hætti lífsgæði okkar við starfslok og þeir sem eiga lítið mega síst við því að skerða lífeyririnn sinn.

Séreignarsparnað ætti aldrei að nýta í neyslu þegar illa árar til skamms tíma. Það má hins vegar hugsa sér að hvatt sé til frekari eignamyndunar fólksins í landinu með því að nota séreignarsparnað til niðurgreiðslu húsnæðislána eða horfa þess í stað til úttektar skyldutryggingar lífeyrisréttinda til frekari niðurgreiðslu húsnæðislána, slík ráðstöfun kæmi sér vel fyrir alla.

Höfundur er forstjóri EY á Íslandi.