Enginn Íslendingur kemst nær því að vera þjóðareftirlæti og Jónas Hallgrímsson. Þetta síblanka skáld trónir framan á tíu þúsund kallinum og uppi á stöpli í Hljómskálagarði.

Hundrað árum eftir fátæklega jarðarför í Kaupmannahöfn voru bein hans grafin upp og flutt heim í trékassa eins og dýrlingsminjar og grafin í hinum fámenna þjóðargrafreit á Þingvöllum.

Sagan hefur verið Jónasi sérlega hliðholl því að hann var umdeildur í lifanda lífi. Hann var gagnrýndur víða fyrir drykkjuskap og stærilæti og mikla dómhörku. Tímaritið Fjölnir er vinsælla meðal nútímafræðimanna en það var nokkru sinni meðal samtímamanna Jónasar.

Íslendingum fannst yfirleitt lítið til blaðsins koma sakir sérvisku og hroka.

Jónas orti falleg ástarljóð og hafa fræðimenn velt því fyrir sér í yfir 150 ár hver var konan í lífi hans. Sannleikurinn er sá að Jónas var fyrst og fremst ástfanginn af ástinni sem hugmynd.

Konan í kvæðunum er loftkennd og ekki af holdi og blóði. Líkur benda til þess að Jónas hafi aldrei verið við kvenmann kenndur eins og nánustu félagar hans.

Þessi skyndilega frægð hefði eflaust komið Jónasi á óvart. Erfiðast finnst honum að kyngja myndinni á tíu þúsund kallinum og tengingunni við glæstar konur því að ævi Jónasar einkenndist af stöðugu peninga- og kvenmannsleysi.

Skáldskapargáfa Jónasar hefur gefið honum óvænta og verðskuldaða frægð eftir dauða sinn. Hann er Þjóðskáldið með tilheyrandi hetjudýrkun og gáfumannasnobbi. Með tímanum hafa vaxið á hann vængir og geislabaugur sem honum sjálfum hefði eflaust fundist fara sér illa.