Nýlega birtust upplýsingar um tekjur þúsunda Íslendinga í „tekjublöðum“ Frjálsrar verslunar og DV, en þar er aðeins hálf sagan sögð. Þar er nefnilega horft fram hjá fjármagnstekjum, sem er helsta tekjulind auðugra Íslendinga. Vitað er að margir vinna svo til enga launavinnu en hafa verulega tekjur í gegnum fjármagnstekjur. Ólíkt þessum fjölmiðlum tók Stundin hins vegar saman lista yfir tekjuhæstu Íslendinga þar sem bæði var horft til launa- og fjármagnstekna sem gefur mun réttari mynd.

Og þá blasti óréttlætið við! Skatthlutföll launamanna eru á bilinu um 31-46%. Eftir því sem tekjur verða hærri því meira er greitt í skatta sem flestum finnst eðlilegt. Af hverri krónu sem launamaður aflar sér yfir tæpri milljón renna 46% í skatt. En ef þú átt miklar eignir og getur að auki hagað málum þannig að mest af tekjum þínum komi í gegnum fjármagnstekjur þá greiðir þú 22% í skatt óháð upphæð. Og það er mikill munur á 22% og 46%.

Kári Stefánsson sem var 13. tekjuhæsti Íslendingurinn í fyrra segir í samtali við Stundina það „vera glórulaust að auðkýfingar eins og hann sjálfur séu ekki skattlagðir hærra en raun ber vitni“. Og Kári er á því að hann eigi marga skoðanabræður í hópi þeirra sem hæstar tekjurnar hafa. „Það er fullt af fólki í þessum hópi sem gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að auka tekjur ríkisins. Þú sækir ekki fé annars staðar en það er til staðar – og þarna er það helst að hafa.“

Það eru margir á því að íslenska skattkerfið sé ekki sanngjarnt – að breiðustu bökin beri einfaldlega ekki sinn skerf.

Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur snýst því ekki um öfund heldur réttlæti