Jólin eru yndisleg. En þegar maður er þreyttur, að vinna mikið, jafnvel með lítið á milli handanna eða miklar skuldir, glímir við heilsuleysi eða eitthvað af ofantöldu geta þau orðið kvíðvænleg. Líka bara ef maður er með fullkomnunaráráttu eða hangir of mikið á Instagram.

Jólin eru hátíð barnanna. Þau eru í hjartanu og þau koma, þó að maður geri ekki þetta og hitt.

Stundum held ég að eitt helsta hlutverk okkar foreldra sé að segja unga fólkinu okkar að minnka kröfur og væntingar. Lífið er skemmtilegra þegar maður dæmir sjálfan sig mildilega. Þorir að vera eins og manni hentar og hefur ekki áhyggjur af því hvort eitthvað sé rétt, rangt, gott slæmt eða nógu gott hjá manni.

Mér finnst mamma eiginlega hafa verið í fullri vinnu alla ævi við að segja mér að það sem ég geri sé nógu gott. Að ég sé nógu góð. Af því það er auðvelt að gleyma því inni á milli og því fylgir vanlíðan.

Ein sagði við mig í gær að hún væri í veikindaleyfi og loksins þætti henni jólin yndisleg. Þau hefðu hingað til verið vesen og allt sem truflaði vinnuna. Núna ætlaði hún að njóta með börnunum sínum.

Mig langar að deila aðventuráði frá mömmu með öllum þeim sem finna fyrir jólaundirbúningskvíða. Það á allt að vera í drasli fram að jólum. Þá er svo gaman þegar allt verður fínt rétt fyrir jól. Allt verður enn þá hátíðlegra og fallegra. Hún á jólagjafapoka (og ég líka) sem öllum gjöfum er stungið inn í. Mjög fljótlegt. Hún setur límmiðakort á efnið en ég endurnýti mín kort til að einfalda mér lífið. Þannig að eiginmaðurinn og börnin fá alltaf sömu jólamerkimiðana hvert ár. Þau kvarta ekki.

Eins og sonur minn segir þegar ég styn yfir einhverju hjá mér. Í gríni auðvitað en öllu gríni fylgir einhver alvara: ,,Mamma, you do you.“

Hárrétt. Gleðilega aðventu!