Jú, ég veit að það eru 39 dagar til jóla og að mörgum finnst of snemmt að byrja að huga að þeim. Þessum mörgu má gróft séð skipta í tvo hópa:

a) Þá sem hafa almennt lítið lagt til jólaundirbúningsins og standa líklega í þeirri trú að jólatöfrar séu til í alvörunni, enda hafa á aðfangadagskvöld gólf skúrast, matur eldast og jólagjafir keypst.

b) Þá sem er sama um jólahreingerningu og finnst bara fínt að dimma ljósin, kasta glimmeri yfir næstu pottaplöntu og kveikja á kertum, altso þeir sem skreyta yfir skítinn.

Ég sum sé tilheyri hvorugum hópnum en stíg nú fram og opna umræðuna um mikilvægi hreinna eldhússkápa, vel pússaðra spegla og fallega straujaðra rúmfata svona almennt, en þó sérstaklega fyrir jólin. Fyrir okkur sem aðhyllumst hugmyndafræðina um „hreint hús = hrein samviska“ þá veitir ekkert af tímanum sem nú er eftir fram að jólunum og ég gef ekkert fyrir kvart ofangreindra hópa.

„Allt of snemmt“ hvað? Hvernig var þetta hér á fyrri tíð – þurfti ekki að velja vænan sauð strax að hausti fyrir jólin? Og hvaða suð er þetta um vesalings verslunarfólkið sem þurfi að hlusta á jólatónlist frá því í október? Ekki er því ágæta fólki vorkennt að afgreiða sólarvörn í febrúar.

Nei. Það er einmitt snjallt að hafa tímann fyrir sér, enda er maður í rúmlega fullri vinnu dagsdaglega. Fara í gegnum húsið og grynnka óþarfa, pússa hér og skafa þar og strauja svo jólasængurfötin með upplestur Róberts Arnfinnssonar á Aðventu Gunnars Gunnarssonar í eyrunum.

Njótið aðventunnar.