Nú koma vonandi jól með hækkandi sól. Eitthvað á þennan hátt sungu Baggalútar þegar kreppan 2008 skall á. Jólin sem núna eru væntanleg verða sennilega ekki eins og við erum vön. Það er langt frá því að heimurinn hafi sigrast á COVID, þessari skæru veiru, ekki heldur við hér á Íslandi.

COVID hefur sett hagvöxtinn á hliðina. Og hvað? Lifum við flest ekki ennþá góðu lífi miðað við það sem margir í heiminum þurfa að búa við? Hagvöxtur er drifkraftur til aukinnar neyslu og þar með göngum við stöðugt á auðlindir jarðar. Margir hafa uppgötvað að önnur verðmæti sem stjórna lífinu okkar eru mikilvægari, t.d. meiri tími, aukin samvera og minni hraði. Í ríkiskassanum virðist vera nóg eftir til að aðstoða fólk og fyrirtæki sem eru í tímabundnum vandræðum. Og vonandi fer aðstoð ekki til fyrirtækja sem hafa malað gull undanfarin ár og þurfa ekki á styrk að halda.

Nú eru margir uggandi yfir því að geta kannski ekki haldið jólahátíðina á hefðbundinn hátt. Engir jólatónleikar, engin jólahlaðborð, búðarölt leggst að mestu af og innkaupin fara fram á netinu. Stemningin í lágmarki. Því miður eru öfl til í þjóðfélaginu, jafnvel á þinginu, sem krefjast meira frelsis. En við verðum að halda stillingu því baráttan við veiruna er alls ekki búin. Auðvitað er sárt að fjölskyldur geta ekki nema að mjög takmörkuðu leyti hist um jólin. Að skjótast milli landa til að hitta ástvini í nokkra daga er úr sögunni í bili. En við þurfum að breyta lífsvenjum hvort sem er og athuga kolefnissporin okkar til að á jörðinni verði hægt að lifa góðu lífi til framtíðar.

Höfum þetta í huga og forðumst að kaupa og gefa óþarft dót sem lendir fyrr eða seinna í rusli. Forðumst að nota allskonar glys og glingur sem fer í tunnuna. Vonandi hefur COVID kennt okkur hófsemi. Þá væri ekki allt neikvætt í kringum þennan faraldur.