Mörgum, sér­stak­lega þeim sem minnst af undir­búningi jólanna vita, þykir alveg ó­mögu­legt að hann sé að ein­hverju marki hafinn nú í nóvember. Í þeirra huga kaupa jóla­gjafirnar sig sjálfar og allt annað gerist fyrir eitt­hvert jóla­krafta­verk. Mér er full­kunnugt um hvað felst í þessu og þó ég baki ekki 17 sortir (borða þær bara) þá hef ég staðið mig að því að tapa mér í jóla­hrein­gerningu. Mér fannst til dæmis eðli­legt að þrífa skrúfu­boxin í geymslunni um miðja nótt eina að­ventuna. Mér til varnar hafði ég ein­mitt lesið í blaði þá snilldar­að­ferð að taka hausinn af ryk­sugunni, smeygja nælon­sokk á rörið og voi­lá! Þið þakkið mér bara seinna.

Ég hef að­eins tónað þetta niður síðustu ár en mun ekki láta glepjast al­ger­lega: lækka bara ljósin og kveikja á kertum – enda skreytir maður ekki yfir skít.

Flest þau sem standa þriðju vaktina hafa fjöl­margar aðrar skuld­bindingar og þykir heppi­legt að undir­búningur dreifist nokkuð yfir á nóvember­mánuð. Sá (ok, sú) sem hitann og þungann ber af öllu saman hefur þá að minnsta kosti tímann fyrir sér.

Annað alveg ó­keypis ráð: Það kann að virðast dá­lítið rómantískt að pakka inn jóla­gjöfum á Þor­láks­messu, hlusta á Bubba, drekka rauð­vín og borða (margar) Sörur á meðan maður pakkar inn gjöfunum. Þetta er mis­skilningur. Ekki þetta með rauð­vínið eða Sörurnar. Ekki heldur Bubba. Það er þetta með inn­pökkunina. Pakkið inn jafn­óðum og þið fáið góssið í hús. Þið munið þakka mér þetta líka og fá ykkur eina auka-Söru upp á það.