Í byrjun desember fyrir einhverjum árum sat ég við eldhúsborð bernsku minnar með bunka af jólakortum og skrifaði „gleðileg jól og farsælt komandi ár þökkum liðið fjölskyldan Hólagötu 19 Vestmannaeyjum“. Ekkert verið að vesenast með greinaskil, kommur og hástafi.

Handskrift hundrað jólakorta kostaði blóð, svita og tár – og lagðist af með skilvirkni rafrænna jólakveðja. Skilvirkni er hins vegar ofmetin. Blóðug handskriftin hafði í það minnsta persónuleika, enda fátt persónulegra en að senda lífsýni með jólakveðjunni. Rauður er, aukinheldur, litur jólanna og ástarinnar.

Í þau tólf ár sem Jón forseti Sigurðsson dvaldi í Kaupmannahöfn sat Ingibjörg Einarsdóttir í festum og beið þolinmóð komu unnustans í eigið brúðkaup. En þau skrifuðust á allan tímann og þar hefur ekki verið töluð vitleysan. Góðir hlutir gerast hægt. Jónar og Ingibjargir okkar tíma eiga hins vegar í skilvirkum rauntímasamskiptum, með tilheyrandi hjörtum og kossakörlum. Ekkert blóð, enginn sviti, engin tár.

Skilvirknin tryggir að sendandi getur séð hvort viðtakandi hafi séð skilaboðin, „seenað“ þau. Ein dauðasynda nútímasamskipta er að seena án þess að svara. Önnur er að svara með þumli.

Gera má því í skóna að innihald þess sem tekur tíma sé með einhverjum hætti sannara. Hefði Jón forseti seenað Ingibjörgu og sent henni þumal í kjölfarið er hætt við að hún hefði leyst festar – og sent honum fingurinn með næsta skipi.