Um þessar mundir eru landsmenn komnir út úr sinni jólakúlu og lífið hægt að færast til betri vegar. Bjartsýni færist í aukana þó að vissulega standi mörgum beygur af alvarlegri stöðu í sumum löndum og nýjum veiruafbrigðum. Lítið þarf út af að bregða – en ef við gætum okkar fram yfir bólusetningu þá eru allar líkur á því að við siglum í örugga höfn. Þessi jól voru öðruvísi og þó að við höfum sýnt skilning á því að vernda hafi þurft viðkvæma hópinn okkar, var söknuður eftir afa og ömmu mikill á mörgum heimilum.

Þó komu kostir litlu jólakúlunnar fljótlega í ljós. Undanfarin ár hefur aðventan verið undirlögð af hittingum og svo virðist sem allir þurfi að hittast þessa fáu daga í desember. Vinnustaðir, saumaklúbbar, gönguhópar og frænkuhópar sjá engan tíma betri til að lyfta sér upp en aðventuna. Á milli þess sem hlaupið er í jólagjafakaup þurfa allir að hittast og þegar jólin eru loks hringd inn eru margir þegar orðnir úrvinda. Þá hafa sjálf jólaboðin tekið við og margar fjölskyldur á þönum úr einu jólaboðinu í annað alla hátíðisdagana.

Öllu þessu breytti jólakúlan. Þjóðinni var gert að skipta úr fimmta gír niður í hlutlausan og hver dagur leið öðrum líkur inni í kúlunni. Allt tilstand varð minna – en nándin þeim mun meiri. Fólk sem áður fyrr hafði verið á útopnu öll jólin gat nú notið þess að vera heima í náttfötum með sínum nánustu og gert mest lítið. Og fólk hóf hversdagslífið eftir hátíðirnar endurnært.

Við höfum vonandi sigrast á veirunni næstu jól – en festum jólakúluna í sessi. Stækkum hana örlítið en drögum úr hlaupunum, veislunum, innkaupunum og neyslunni – en kaupum okkur kósýgalla!