Fyrsti sunnudagur í aðventu er nú að baki. Spádómskertið logaði glatt á fjölmörgum heimilum landsins um helgina þrátt fyrir bullandi samkomubann og þá staðreynd að fram undan er aðventa ólík öllum fyrri aðventum.

Faraldurinn er í línulegum vexti hér á landi og sóttvarnalæknir hefur skilað ráðherra minnisblaði með tillögum að því hvað taki við þegar gildandi reglur falla úr gildi nú á miðnætti. Þó svo nýjar reglur hafi ekki verið gefnar út þegar þessi orð eru rituð er ljóst að lítið rými er til tilslakana á gildandi samkomutakmörkunum.

Við vitum sem er, að í ár verður aðventan, jólahátíðin og áramótin með öðru móti en við erum vön og vonuðumst til.

Hátíðin sem vanalega einkennist af vinafögnuðum og fjölskyldumótum mun nú í ár bera meiri keim af hausatalningu og fjarlægðaráminningum. Við erum meira að segja vinsamlegast beðin um að vera ekkert að syngja!

Við hefðum kannski bara átt að fresta jólunum eins og Castro gerði fyrir um fimm áratugum? Nú liggur mögulega meira við en björgun sykurreyrsuppskerunnar sem Castro vildi ekki fórna fyrir jólahátíðina árið 1969. Bólusetning er innan seilingar og við sjónarröndina glittir í stórveislur og hópknús svo örlítil seinkun kæmi kannski ekki að sök?

Nei, það sem þessi þjóð þarf einmitt nú eru jól! Jafnvel þó að jólahlaðborðið verði við borðstofuborðið heima, rétt eins og jólagjafainnkaupin, þá er eitthvað við jólin sem fær okkur til að hugsa betur hvert um annað og nú er engin vanþörf á því.

Okkur þyrstir í uppbrot í hversdaginn, við þráum gleði, samkennd og skemmtun. Þó að mánuðurinn sem framar öðrum er frátekinn í hefðir, verði sannarlega ekki eins og árin á undan, þá verður hann samt góður. Ef við ákveðum það.

Mælst er til þess að fólk velji sér sína jólakúlu, það er þá aðila sem það ætlar sér að hitta yfir hátíðirnar og reyni eftir getu að halda samskiptum sínum innan þess hóps. Nú er því tíminn til að fara að gera skemmtileg plön með fáum útvöldum sem komast inn í þína kúlu. Leyfa sér að hlakka til.

Á fáum stöðum í heiminum er jólunum fagnað eins innilega og eins lengi og hér á Íslandi. Hátíð ljóss og friðar kemur á kærkomnum tíma þegar sólin er hvað lægst á lofti og hitastig í ákveðnu lágmarki ár hvert og nú kemur hún eins og kölluð.

Það virðast allir vera löngu farnir að skreyta og í óðaönn að baka og föndra. Kannski fáum við jafnvel handskrifuð jólakort inn um lúguna í ár? Þetta verða jólin sem við leitum inn á við, lesum sem aldrei fyrr, prófum stresslausa jólahátíð og þurfum ekki að lifa á pakkasúpu í janúar til að greiða Vísareikninginn.

Hver veit nema að árið 2020, árið þegar COVID stal jólunum, verði til þess að við lærum eins og Trölli að jólin eru einmitt í hjörtum mannanna og okkar hjörtu stækki um þrjú númer?

Kannski væmið, en alla vega virkilega jólalegt!

Njótið aðventunnar í ykkar kúlu!