Boðskapur jóla er friður og göfgi. Allir eiga að vera sáttir á jólum og láta gott af sér leiða. Margar sögur eru sagðar af náungakærleik sem tengist jólum. Fyrirtæki gefa matvöru til þurfandi fjölskyldna. Í heimsstyrjöldum liðinnar aldar þögnuðu fallbyssurnar yfir hátíðirnar. Fallegustu söguna um friðarboðskap jólanna er þó að finna í Sturlungu.

Í september 1241 var Snorri Sturluson drepinn í Reykholti, að skipan Hákonar gamla Noregskonungs. Gissur Þorvaldsson fór með mikið lið Sunnlendinga að skáldinu og lét tvo undirmálsmenn og smákrimma drepa Snorra í kjallaraholu. Stjúpsonur Snorra, Klængur Bjarnarson, var með í för og tók þátt í þessu glæpaverki. Þegar Gissur var á braut með hyski sitt, varð Klængur eftir og tók við staðarforráðum.

Þremur mánuðum síðar á jólum kom frændi minn, Órækja Snorrason Sturlusonar, með flokk manna af Vestfjörðum og lagði undir sig Reykholt. Þeir handtóku Klæng og Órækja ákvað að drepa hann í hefndarskyni fyrir föður sinn.

En þetta var á aðfangadag svo að Órækja afréð að þyrma lífi Klængs í Jesú nafni. Á öðrum degi jóla rann þó hátíðleikinn af Órækju og hann lét hálshöggva fangann sem reyndar var fyrrverandi stjúpbróðir hans.

Boðskapur og andi jóla er ótvíræður. Órækja ákveður að sýna mildi og frið og bíður með að taka piltinn af lífi þar til eftir hátíðirnar. Ég hef alltaf undrast að menn skuli ekki hafa haldið þessari sögu á lofti í kirkjum landsins. Hún sýnir að hjörtu hinna mestu illvirkja mýkjast um jólin! Fyrir okkur hin skiptir þó mestu að láta anda jólaguðspjallsins endast allt árið! Gleðileg jól, kæra þjóð!