Aðventan hófst síðastliðna helgi. Tími jólahlaðborðs, fimleikamóts, uppsetningar jólaljósa, jólaballs, jólatónleika, jólasnarls og að­ventu­stundar þar sem við fórum í jólapeysur og settum á okkur jólahúfur. Á svörtum föstudegi og rafrænum mánudegi var lokið við að kaupa meirihluta jólagjafanna. Ég held ég sé tilbúin fyrir þessi jól fyrir utan „örfáa hluti“ til viðbótar sem þarf að græja fyrir jólin!

Jólin eru yndislegur tími en þau eru líka annasamur tími fyrir langflesta. Þau eru tími togstreitu á milli þess að njóta og vera í streitu. Það er auðvelt að verða streitunni að bráð í desember og því má velta fyrir sér hvort ekki megi minnka aðeins aðgerðalistann. Það þarf ekki að gera allt fyrir jólin! Þau koma hvort sem er og jólaandinn er háður því að okkur líði vel.

Á tónleikunum fann ég þá innri ró og djúpu tengingu við lífið og tilfinningarnar sem er svo dýrmæt enda gáfu okkar ástsæli Páll Óskar, Monika og allt tónlistarfólkið sig öll í verkefnið. Aðventan er tími til að hugleiða undangengið ár, horfa fram á veginn, vera þakklát, umhyggjusöm en jafnframt í núinu. Tími til að huga að eigin líðan og annarra. Ef fullorðnu fólki líður vel þá líður börnum frekar vel og jólin eru hátíð barnanna.

Ég legg til að við sem þjóð gefum okkur ákvörðun um Velsældarlöggjöf í jólagjöf sem systkinalöggjöf Farsældar, vel heppnaðrar löggjafar fyrir börn sem byggir á sömu hugmyndafræði, en fyrir fullorðna. Þannig aukum við líkur á að sem flestir þrífist í samfélaginu, börn jafnt sem fullorðnir, á komandi árum og áratugum. Gleðileg velsældarjól!