Jólabókaflóðið nær áður óþekktum hæðum fyrir þessi jól. Fjölmiðlar keppast við að kynna og ritdæma bækur. Rithöfundar eru í fullri vinnu við að lesa upp og fara í viðtöl. Þetta er séríslenskt fyrirbæri. Ég bjó um árabil bæði í Svíþjóð og Þýskalandi og varð aldrei var við slíka jólabókaveislu. Íslenskir höfundar koma að 450-500 bókum á árinu. Þetta mundi þýða að Svíar gæfu út 12.000 frumsamin verk. Slíkt flóð mundi drekkja sænskum bókabúðum.

Hluti þessara bóka fær dóm og stjörnugjöf í fjölmiðlum. Allir fá 3-5 stjörnur sem þýðir að Íslendingar gefa ekki út vondar bækur. Ég skrapp til útlanda á dögunum og keypti nokkrar íslenskar jólabækur í nestið. Þær voru ærið misjafnar eins og gengur. Ég þrælaði mér í gegnum tvo arfavonda krimma þar sem ég var eitt stórt spurningarmerki í bókarlok. Báðar þessar bækur voru úr öllum takti við íslenskan veruleika. En þær voru ritaðar samkvæmt viðurkenndri skandinavískri glæpasagnaklisju.

Þetta voru fjögurra stjörnu bækur svo að ég er ekki í neinum takti við stjörnustríðið og gæðastimplana.

Skemmtilegasta bókin sem ég las var Kokkáll eftir Dóra DNA. Hún kom skemmtilega á óvart. Dóri hefur næmt auga fyrir dellunni í samfélaginu og dregur samtíð sína sundur og saman í háði. Hann gefur skít í pólitíska rétthugsun og fer sínar eigin leiðir. Bókin er í eigin stjörnukerfi.

Jólabókaflóðið sýnir að mikill kraftur er í íslenskum rithöfundum. Því ber að fagna enda sýnir nýafstaðin Pisakönnun að ólæsi fer vaxandi meðal þjóðarinnar. Nú er um að gera að gefa út sem flestar bækur meðan einhver er eftir sem kann að lesa.