Álfasalan hefur á undanförnum áratugum bjargað fjölmörgum mannslífum. Álfasalan er fjárhagslegt akkeri SÁÁ sem á móti getur rekið margbreytilega þjónustu fyrir fólk með fíknisjúkdóma og aðstandendur þeirra. Álfasalan hefur líka þann mikla kost að minnka fordóma í garð þeirra sem eru með fíknisjúkdóm og aðstandenda þeirra.

Þjónustan er margbrotin, hún byggir á getu meðferðaraðila til að meta þörf einstaklinga á einstökum úrræðum. Hugmyndafræðin byggir á því að gefa einstaklingnum tækifæri til að gera grundvallarbreytingar í lífi sínu og veita honum sem bestan stuðning til þess. Einstaklingarnir eru misjafnir og þurfa á mismunandi stuðningi að halda. Sumir þurfa á inniliggjandi meðferðarúrræði að halda meðan aðrir þurfa að fá meðferðarþjónustu í göngudeild. Að lokinni meðferð stendur fólki til boða eftirfylgni sem getur staðið í mislangan tíma. Allt þetta ferli þarf auðvitað að taka mið af þörfum hvers og eins. Þess vegna er mikilvægt að hafa samfellu í þjónustunni.

Undanfarna áratugi hefur SÁÁ þurft að loka göngudeildum og eftirmeðferðarstöðvum sínum í sex vikur á hverju ári. Þetta hefur verið gert til þess að ná endum saman fjárhagslega, þar sem hið opinbera greiðir einungis hluta af þeirri lögbundnu þjónustu sem veitt er. Það er mjög bagalegt að þurfa að grípa til svona aðgerða, sérstaklega þar sem það vinnur gegn markmiðum um góða, einstaklingsbundna og samfellda þjónustu.

Þess vegna hefur stjórn SÁÁ hrundið af stað átaki til að halda eftirmeðferðarstöðinni Vík og göngudeildunum í Reykjavík og á Akureyri opnum allt árið. Hætta sumarlokunum. Fyrir okkur sem vinnum á þessum stöðum er þetta mikið gleðiefni, því við vitum hversu mikilvæg samfellan er í starfi okkar. Við höfum séð brottfallið á hverju ári, við höfum séð hvernig fólk hefur þurft að hefja meðferð að nýju og við höfum séð angist aðstandenda vegna þessara lokana.

Þetta átak hefst með sölu jólaálfsins. Við hvetjum alla sem geta til að kaupa þennan velheppnaða álf.

Fyrir hönd dagskrárstjóra hjá SÁÁ.