Ég er sofandi. Skyndilega er ég vakin af anda liðinna jóla. Hann sýnir mér æskujólin. Ferðir með pabba að setja ljós hjá ástvinum, jólakortaskrif þar sem vinum og ættingjum var flett upp í símaskránni í eldhúsinu. Ferðalag á aðfangadag að vitja leiðis afa með fréttirnar og veðrið í útvarpinu. Ilmurinn og jólaskrautið sem dönsuðu um skynfærin við heimkomu. Eftirvænting í loftinu, pakkarnir, spilamennskan og símtalið frá Diddu frænku. Ég finn jólaandann svífa í loftinu og umlykja mig alla.

Skyndilega er ég hrifsuð til baka. Andi síðari jóla er mættur. Litli frændi biður mig að skreyta með sér jólatréð. Sjálfsagt mál kallinn minn. Ég ætla bara fyrst að klára smá … Það er Þorláksmessa og ég þeytist um bæinn þveran og endilangan í bílaþvögu og hef tekið ofskammt af jólastressi. Þennan dag þarf að gera allt frá því að heimsækja vini hér og þar í að finna gólfmottuna sem alltaf hefur vantað í forstofuna. Ég kem heim seint á Þorláksmessukvöld að litla frænda sofandi í sófanum við óskreytt jólatréð. Nístir í hjartað. Ég brást. Jólagleðin fölnuð.

Að lokum kemur andi framtíðarjóla. Ég sé mig njóta hvers augnabliks með ástvinum. Jólastressið úti í kuldanum. Eldhússkáparnir óþrifnir og engin gólfmotta. Allt í lagi þó að sósan sé ekki fullkomin, það gengur bara betur næst. Jólin eru mætt þó allt sé ekki fullkomið. Jólaandinn er á staðnum, svífur um allt á sinn ósnertanlega en töfrandi hátt. Takk Dickens. Sagan þín frá 17. desember 1843 á enn við. Gleðileg jól frá Skröggi.