„Orðið verð er eigi langt orð, en þó hefir það verið lítil heillaþúfa um að þreifa flestum auðfræðíngum, hvað þá heldur öðrum fræðimönnum.“

Setningin er úr Auðfræði eftir Arnljót Ólafsson, sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út 1880. Fjórum árum fyrr gaf Landsbankinn út fyrstu íslensku krónuna.

Hluti þjóðarinnar notar krónuna enn til að mæla verðgildi vöru, vinnu og þjónustu. Svo hefur hún sjálf sitt verðgildi.

Í ríflega fjóra áratugi hefur verið breið samstaða um að krónan geti ekki ein og sér þjónað öllum Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum.

Þrír dilkar

Fyrir þá sök höfum við kosið að draga þjóðina í þrjá aðgreinda gjaldmiðladilka.

Í fyrsta dilk er almenna krónan, sem Seðlabankinn stjórnar.

Í öðrum dilk er verðtryggða krónan. Hún er í raun sérstakur gjaldmiðill, er Seðlabankinn hefur óveruleg áhrif á.

Í þriðja dilk er um þriðjungur þjóðarbúskaparins, sem notar erlenda gjaldmiðla. Þessi dilkur lýtur aðallega stjórn seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu.

Aðgreiningin er af þeim góða huga gerð að bæta þar úr sem almenna krónan veldur mestu tjóni. En sá böggull fylgir skammrifi að það hafa ekki allir jöfn tækifæri. Það er óréttlæti, sem aftur skekkir samkeppnisstöðu innbyrðis í samfélaginu. Og sú skekkja er óhagkvæm fyrir heildina.

Fjölmyntakerfinu svipar í eðli sínu til fjölgengiskerfisins, sem Viðreisnarstjórnin afnam um leið og innflutningshöftin í byrjun sjöunda áratugarins.

Unga fólkið

Vextir almennu krónunnar þurfa að vera margfalt hærri en helstu erlendu gjaldmiðla til þess að halda verðgildi hennar uppi.

Sá hluti samfélagsins, sem skuldar almennar krónur, er með þessum háu vaxtagreiðslum í raun að greiða niður innflutningsverð, sem allir njóta.

Útflutningsfyrirtækin, sem taka erlend lán, þurfa hins vegar ekki að taka þátt í þessum samfélagslega kostnaði.

Í þessu felst tvenns konar aðgreining. Annars vegar milli ungs fólks, sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, og svo eigenda útflutningsfyrirtækjanna. Hins vegar milli fyrirtækja eftir því hvort þau eru innan eða utan krónuhagkerfisins.

Lífeyrisþegar

Vextirnir eru ekki eina aðgreiningin. Til þess að halda uppi verðgildi krónunnar er helmingur alls sparnaðar rétthafa í lífeyrissjóðum í gjaldeyrishöftum.

Höftin eru svo umfangsmikil að þau jafngilda ríflega heilli þjóðarframleiðslu. Verðgildi almennu krónunnar skekkist að sama skapi. Lífeyrisþegar eru í raun og veru að niðurgreiða innflutningsverð.

Aðgreiningin felst í því að rétthafar í lífeyrissjóðum sæta gjaldeyrishöftum meðan allir aðrir eru frjálsir. Þar á meðal eru þeir sem njóta einkaréttarhagnaðar af nýtingu þjóðarauðlinda, sem ekki er greitt fyrir. Þeir taka ekki þátt í þessum samfélagslega kostnaði með lífeyrisþegum.

Velferðin

Aðgreiningin kemur líka fram í því að sameiginlegur sjóður þjóðarinnar þarf að greiða margfalt hærri vexti fyrir fjárfestingu í velferð og menntun en fyrirtækin, sem standa utan krónuhagkerfisins.

Ekkert vestrænt ríki greiðir jafn hátt hlutfall útgjalda í vexti eins og ríkissjóður Íslands þrátt fyrir hóflegt skuldahlutfall.

Þessi aðgreining veldur því að skólarnir, heilbrigðisþjónustan og velferðarkerfið hafa minni möguleika en fyrirtækin utan krónuhagkerfisins til þess að standa jafnfætis grönnum okkar.

Seðlabankinn

Gjaldmiðlaaðgreiningin veldur því einnig að Seðlabankinn hefur þrengra svigrúm en seðlabankar annarra þjóða til þess að stjórna peningamálum í þjóðarbúskapnum.

Meðan einn hluti þjóðarinnar notar almenna krónu, annar hluti verðtryggða krónu og þriðji hlutinn dollara eða evrur er Seðlabankinn fatlaður.

Rangindin felast í því að aðhaldsaðgerðir Seðlabankans ná ekki til þeirra sem best standa. Fyrir vikið verður að beita hina, sem eru innan krónuhagkerfisins, meiri hörku en þyrfti, ef allir sætu við sama borð.

Valið

Við byrjuðum að fjölga gjaldmiðlum fyrir rúmum fjörutíu árum vegna þess eins að verðgildi krónunnar var „lítil heillaþúfa um að þreifa“.

Þá voru aðrir vegir tæpast færir. Núna eru fleiri leiðir opnar.

Ágreiningurinn snýst um það hvort velja eigi eina samkeppnishæfa mynt allra landsmanna úr hópi þeirra sem við notum helst eða viðhalda fjölgjaldmiðlakerfinu, sem veldur misgengi og misrétti og dregur úr framleiðni þjóðarbúsins.

Þetta er spurning um þjóð með eða án aðgreiningar.