Ég vil þakka gæðingum Biskupsstofu meint frumhlaup þeirra í stóra Trans-Jesú málinu. Það var fjarska hressandi. Uppnám úr öllum áttum og föðurlegar afsökunarbeiðnir kirkjuþings gera málið enn skemmtilegra. Nú vita öll að þjóðinni stendur ekki á sama um Jesú.

Í ljósi dagsins er vert að muna að á meðan engar lýsingar má finna í ritningunni er varði útlit meistarans og ekki annað eftir honum haft um kynferðismál en þá almennu sýn að sá höndli sem höndlað fái, þá geymir hefðin beinar lýsingar á fjölskyldu Jesú sem pólitísku flóttafólki í Egyptalandi. Þegar þessi orð eru rituð höfum við eina slíka fjölskyldu á meðal okkar, hjónin Doaa og Ibrahim ásamt börnum sínum fjórum. Texti guðspjallanna geymir líka afgerandi skilaboð um börn: Hver sem tekur við einu barni í mínu nafni tekur við mér, mælir meistarinn. Hann varar fólk við því að koma illa fram við börn og staðhæfir með hótandi orðfæri að hvert barn eigi sér engil á himni. Að kristnum skilningi eru börnin hinir sönnu dómarar heimsins. Viljir þú þekkja sjálfa(n) þig skalt þú skoða þig með augum þeirra barna sem eiga heilsu sína og öryggi undir þér komið. var Jesús að segja.

Málefni egypsku flóttafjölskyldunnar varðar ekki bara þau sem persónur. Núna speglast íslenskt þjóðfélag í augum þessara barna. Börn byrja alltaf ósjálfrátt að elska og treysta umhverfi sínu. Skilaboð Jesú eru skýr: Þú ert það sem þú ert í vitund þeirra barna sem fara að elska þig og treysta þér. Vilji íslensk þjóð eitthvað með Jesú hafa, fleira en að sússa sig á honum, hvet ég okkur til að skilja að Trans-Jesú pæling allra alda er sú að Guð býr í líkömum. Í dag birtist hann okkur í fjórum egypskum börnum.