Ég held að ég sé fyrsti maðurinn í alheiminum með þessar vangaveltur. Ég ætla bara að segja þetta. Ég held að ég yrði góður prins.

Það færi mér ákaflega vel að geta vaknað í einhvers konar lúxus­húsnæði á hverjum degi, í risastóru þykku en fyrst og fremst mjúku rúmi. Fá mér kaffibolla frá Indónesíu.

Rölta út úr húsi á Bessastöðum og virða fyrir mér Álftanesið. Heimsækja alls konar bæi á landsbyggðinni, taka í lúkurnar á fólki og heimsækja alls konar fyrirtæki.

Nei, ég held ég yrði frábær prins. Ég yrði endalaus uppspretta frétta. Miklu áhugaverðari en Guðni, af því að ég ætti þetta svo innilega ekki skilið.

Ég væri prinsinn af Íslandi. Prins fólksins! Fæddur í þetta hlutverk.

Svo af því að ég er ekki elstur systkina minna yrði ég óhjákvæmilega óhamingjusamur og gæti tjáð mig um það á opinberum vettvangi! Ímyndið ykkur fréttaflóðið!

Ég myndi á endanum eðli málsins samkvæmt segja skilið við Bessastaðafjölskylduna. Flytja úr landi. Til Hollywood. Verða opinberlega vestanhafs „The Prince of Ice“.

Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Ég myndi ekkert biðja um mikið fyrir þetta heldur. Bara endalaust fjármagn frá íslenskum skattgreiðendum. Það þyrfti líka að greiða fyrir öryggisgæsluna mína, sjáiði til, þannig að þetta er alls ekki frekja og nánast ofbeldi að halda öðru fram.

Sjáiði líka fyrir ykkur landkynninguna? Ég myndi skrifa bók og hjóla í íslenska fjölmiðla. Svo hlýtur Oprah Winfrey að hringja.

Eins og ég segi. Ég er fyrsti maðurinn með þessa hugmynd.