Ég var ekki fyrr búinn að lesa samsæriskenninguna um að allir sem fái bóluefni verði dánir innan þriggja ára þegar sms-ið kom. Janssen-glussinn fyrir mig. Við erum búin að hugsa svo mikið um þessi bóluefni að þau eru farin að taka á sig sinn eigin karakter. Pfizer slær mann sem háþróað tækniundur, framleitt í rándýrri og framtíðarlegri tilraunastofu á meðan Janssen er af gamla skólanum. Ég sé fyrir mér gamlan, sérvitran vísindamann á eyðibýli að sulla í pottum og prófa glundrið á hundinum sínum sem er kominn með tvö höfuð og sjö fætur en er að öðru leyti undarlega stálsleginn.

Að íslenskum sið ákvað ég strax að mæta alls ekki á boðuðum tíma. Ég lagði á mig allavega þriggja tíma vinnu til að spara mér mögulegan hálftíma í röð, var með menn á staðnum og fékk upplýsingar í rauntíma um gang mála. Þegar leiðin var orðin greið þusti ég af stað. Umgjörðin í Höllinni er tilkomumikil, hugguleg tónlist í hljóðkerfinu og beint streymi frá Geldingadal. Sennilega einsdæmi í heiminum að bein útsending frá virku eldgosi í innan við 50 km fjarlægð teljist besta leiðin til að róa fólk niður.

Það vantaði ekki að ferlið væri allt fumlaust og faglegt. En ég veit ekki hvort það var eldgosið, samsæriskenningarnar eða nálarnar en bara á þeim 20 mínútum sem ég var þarna var talsvert um aðsvif og yfirlið. Fólk er þó fljótt á fætur aftur, rétt eins og þjóðfélagið um þessar mundir. Ekki seinna vænna, við höfum bara þrjú ár til að njóta frelsisins! ■