Allt frá því að Rauðsokkahreyfingin smyglaði sér inn í 1. maí gönguna með slagorðið „Manneskja ekki markaðsvara!“ fyrir rúmri hálfri öld, hefur sókn kvenna til frelsis hér á landi verið óstöðvandi. Kvennaframboðið og Kvennalistinn breyttu leikreglum stjórnmálanna á níunda áratugnum og færðu umræðuna inn í nútímann. Það var tími til kominn. Nauðganir, sifjaspell og heimilisofbeldi höfðu ekki verið nefnd upphátt á Alþingi fyrir þann tíma. Nýjar hugmyndir um náttúruvernd, stofnun umhverfisráðuneytis, sjálfbærni og gildi ósnortinna víðerna voru settar á dagskrá stjórnmálanna af Kvennalistakonum. Baráttan fyrir réttindum hinsegin fólks var borin uppi af konum úr Kvennalistanum, sem síðar gengu til liðs við Samfylkinguna.

Ómetanleg barátta Samtakanna '78 hefur fært okkur betra samfélag þar sem hinseginleikanum er fagnað. En baráttunni er ekki lokið þótt margt hafi áunnist. Okkur ber til að mynda að styðja kynsegin fólk sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar og það gerir Samfylkingin sannarlega.

Hvers vegna rifja ég þetta upp hér? Vegna þess að allt sem hér er upptalið er hluti af arfleifð Samfylkingarinnar. Arfleifð og baráttumál sem ég er stoltari af en flestu öðru í stefnu míns góða flokks. Það er sem betur fer langt síðan að jafnréttisbaráttan færðist af jaðri stjórnmálanna og mér þætti gaman að heyra frá þeim frambjóðenda sem segðist ekki styðja fullt jafnrétti kynjanna í samfélaginu.

Misréttið í samfélaginu tekur á sig margar myndir. Kynferðisofbeldi er ein sú ljótasta og sú sem hefur mestar langtímaafleiðingar. Það er ólíðandi að þolendur kynferðisofbeldis skuli þurfa að fara til Mannréttindadómstóls Evrópu til að leita réttlætis sem ekki fékkst fyrir íslenskum dómstólum. Engin kerfi eru ósnertanleg og það á líka við um dómskerfið. Þar er umbóta þörf og stóraukins stuðnings við þolendur ofbeldisbrota.

Samfylkingin strengir þess heit að vera áfram sem hingað til í fararbroddi í mannréttinda- og jafnréttisbaráttunni hér heima og á alþjóðavettvangi. Þannig gerum við lífið betra.