Öflugur stuðningur við námsmenn er forsenda þess að fólk geti sótt sér menntun óháð bakgrunni eða efnahag. Það er því gott að heildarendurskoðun laga um námsaðstoð er nú til meðferðar á Alþingi. Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna veitir kjörið tækifæri til að fjárfesta í menntun og tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi.

Í frumvarpinu er tillaga um að námsmenn fái hluta námslána sinna niðurfelldan, ljúki þeir námi á réttum tíma. Þetta er álitleg tillaga sem getur aukið skilvirkni í skólakerfinu og skilað nemendum fyrr út á vinnumarkaðinn en ella. Mennta- og menningarmálaráðherra á hrós skilið fyrir að beita sér fyrir þessu.

Í frumvarpinu er hins vegar ekki gert ráð fyrir auknum almennum stuðningi við stúdenta á meðan á námi stendur. Það er áhyggjuefni.

Samkvæmt EUROSTUDENT VI, sem er nýleg evrópsk könnun, skera háskólanemar á Íslandi sig frá nemendum á öðrum Norðurlöndum hvað varðar atvinnuþátttöku. Þeir vinna að meðaltali 25,7 klst. á viku með námi og 53% nemenda vinna meira en 20 klst. á viku. Slík vinna samhliða námi veldur of miklu álagi á nemendur og hefur slæmar afleiðingar fyrir námsframvindu. Fjárhagslegar áhyggjur og vinnutengdar aðstæður eru ein algengasta ástæða þess að stúdentar á Íslandi tefjast í námi.

Það er því ákveðin hætta á því að góð og skynsamleg markmið um að hvetja námsmenn til að ljúka námi á styttri tíma náist ekki, ef stór hluti nemenda þarf áfram að sinna tímafrekri vinnu meðfram námi. Þeirra nemenda sem ekki tekst að uppfylla kröfur um námsframvindu bíður svo fullt lán á hærri vöxtum. Hér er tækifæri til að stíga eitt skref til viðbótar og auka stuðning við nemendur á meðan á námi stendur svo háskólanámið sjálft getið verið í forgrunni á námstímanum þannig að námsframvinda verði tryggð.

Við hvetjum stjórnvöld til að bregðast við þeirri stöðu sem EUROSTUDENT hefur leitt í ljós og tryggja að nýtt lánasjóðskerfi geri stúdentum kleift að einbeita sér að náminu án þess að viðbótar fjárhagsstuðnings sé þörf og stuðla þannig að því að allir nemendur, óháð fjárhag, hafi raunverulegt jafnrétti til náms.