Á þeim rúmu 100 árum sem Hæstiréttur hefur starfað hafa fimmtíu og fjórir dómarar verið skipaðir við réttinn. Fjörutíu og sjö karlar og sjö konur.

Skýringar á þessu ójafnrétti eru þær sömu og á öðrum sviðum þar sem hallað hefur á konur. Þær er að finna í lakari rétti kvenna til náms og samfélagsþátttöku á 100 ára líftíma Hæstaréttar og þar af leiðandi útilokun frá æðstu metorðum. Þær hægu en stígandi framfarir sem orðið hafa í jafnréttisbaráttu kvenna á þessum 100 árum hafa skilað því að konur gegna nú fjölda embætta í æðstu lögum stjórnsýslunnar. Þær eru ráðherrar, lögreglustjórar og dómarar. Ekki af því að þær eru konur, heldur af því að jafnréttisbaráttan hefur tryggt þeim betri tækifæri, jafnan rétt til menntunar og rými til að láta drauma sína rætast.

Með fjölgun löglærðra kvenna fjölgar kvendómurum. Af 38 héraðsdómurum eru sextán konur. Af fimmtán landsréttardómurum eru sex konur. Þegar Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir mæta til starfa við Hæstarétt verða þrjár konur í réttinum og fjórir karlar. Hlutföll kynjanna í réttinum hafa aldrei verið jafnari. Það er fagnaðarefni, því að þrátt fyrir að dómarar eigi að dæma eftir lögunum verður ekki fram hjá því litið að almenn skynsemi, hyggjuvit og lífsreynsla hvers dómara leikur sitt hlutverk þegar dómar eru felldir. Það er dómari sem metur hverju sinni hvort málsaðilar fyrir dómi hafi sannað mál sitt. Lífsreynsla dómarans sem manneskju blandast óneitanlega inn í þetta mat. Það er bæði óumflýjanlegt og eðlilegt. Þess vegna skiptir máli að æðsti dómstóll landsins hafi á að skipa breidd og endurspegli eins vel og unnt er það samfélag sem hann á að þjóna.

En kyn er ekki og á ekki að vera fyrsti og fremsti mælikvarðinn á skipun í æðstu embætti stjórnkerfisins. Lögum samkvæmt er skylt að skipa hæfasta umsækjandann í embætti og séu margir jafnhæfir á að byggja valið á málefnalegum forsendum. Ákvörðun ráðherra að þessu sinni með skipun þeirra Ásu og Bjargar stenst það próf og mun auka breidd réttarins á fræðasviðum lögfræðinnar.

Sitjandi dómarar við Hæstarétt hafa gríðarmikla dómarareynslu. Hæstiréttur hefur hins vegar fengið annað og æðra hlutverk en eingöngu að dæma þau mál sem til hans er vísað, eins og í tilvikum annarra dómstóla. Það er hlutverk Hæstaréttar að leggja öðrum dómstólum línurnar með fordæmum þar sem þau hefur vantað og senda Alþingi og stjórnvöldum tóninn ef lög eða stjórnvaldsfyrirmæli standast ekki stjórnarskrá. Þetta hlutverk krefst ekki síður akademískra vinnubragða en reynslu af dómstörfum. Þær Björg og Ása koma því heldur betur til með að auka þungavigt Hæstaréttar með akademískri reynslu sinni, en þær eru báðar prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands. Ása kemur inn í réttinn með sérþekkingu sína á samninga- og fjármunarétti og Björg á sviði mannréttinda og yfirburðaþekkingu á stjórnskipunarrétti.

Það er tilhlökkunarefni fyrir áhugafólk um lögfræði að fylgjast með Hæstarétti á næstunni, sem vonandi eflist og dafnar í nýju hlutverki eftir kynslóðaskiptin sem orðið hafa um borð.