Jæja!

Er ekki bara kominn tími á jafnréttið? Í alvöru. Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA var stofnað 9. apríl 1999 og er 22 ára í dag. Öllum þessum árum síðar skyldi maður ætla að ekki væri lengur þörf fyrir félag af þessu tagi sem hefur það markmið að jafna hlut kynjanna, beina kastaranum að konum, tengja þær og gefa þeim verðskuldað pláss. Það er hægt að fara langt aftur í tímann til að sjá að fullt af áfangasigrum hafa unnist og reglulega eru sagðar sögur af rosalegum rokkstjörnum er kemur að jafnréttinu hér á landi en staðreyndin er sú að við erum bara skást. Það hallar verulega á konur og við þurfum í alvöru að setja konur á dagskrá, fagna fjölbreytileikanum, hætta að gengisfella lífsreynslu og þekkingu kvenna og tryggja að hópar reynslumikilla kvenna upplifi tækifæri, virði og tilgang. Í alvöru, annars töpum við öll.

Nú er lag að hætta að þykjast vera jafnréttisparadís og fá jafnréttispúlsinn í takt. Það gengur ekki að vera alltaf með blóm, kransa og rauða dregla út og suður að fagna geggjuðu gengi í jafnréttismálum þegar sviðsmyndin er bakslag, stöðnun og brothætt ástand þegar kemur að málaflokknum. Konur eru útsettari fyrir veirunni, ofbeldi staðreynd og engin kona fer fyrir skráðu fyrirtæki í Kauphöllinni svo dæmi séu tekin. Tölurnar tala.

Computer says no!

Það er þörf á að frelsa öll kyn frá einhverju gefnu þannig að einstaklingar hafi sannarlegt val er kemur að því að velja sér starfsvettvang, nám, stöðu og þróa sinn smekk. Það er ekkert grín að geta ekki verið á eigin forsendum, það er ekkert grín að vera skör lægri, minna metin og fá ekki að sitja við sama borð þegar kemur að því að nýta sér jafnréttið. Og hér er óþarfi að hringja í 113 Vælubílinn. Þetta er bara staðan og við skulum anda í kviðinn, spyrna í botninn og sleppa fórnarlambakenningum. „Konur sækja ekki um“, eða „Konur biðja ekki um launahækkun.“ Þessi afsökun er komin í þrot og er þvæld og snjáð eftir áratuga notkun. Út með hana!

„Computer says no!“ Kannist þið ekki við þetta líka? „Nei það er ekki hægt! Tölvan segir það. Það stendur hérna.“ Í alvöru! Við vitum að það er óþolandi þvæla að skýla sér á bakvið afsökun sem þessa. Tæknileg nauðhyggja segir að tæknin sé afl sem mótar samfélagið og menninguna en við megum aldrei gleyma því að við búum til tæknina. Ekki öfugt. Út með þessa afsökun líka.

Ekkert mál að vera neikvæður.

Það er svo lítið mál að vera neikvæður. Góðu fréttirnar eru að við getum verið breytingin og gert heilmargt í málum þegar kemur að því að koma vel fram við fólk og tryggja að fólk haldi reisn og virðingu sinni. Að einstaklingar fái að blómstra á sinn einstaka hátt sama í hvaða fæðingargalla við erum. Og hér þarf skýran ásetning ríkis, fyrirtækja og stofnana um að setja jafnréttið, mannréttindi á dagskrá öllum til hagsbóta. Atvinnulífið verður hér að huga að næstu ráðningu og vera meðvitað um að að jafnréttið er ákvörðun. Allir hafa hag af því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og það finnur fólk og því eru tækifæri einstaklinga til að hrinda hugmyndum í framkvæmd, aðgengi að fjármunum, að stjórnar- og stjórnunarstörfum og almenn tækifæri til að hafa áhrif í samfélaginu alltaf að aukast fyrir öll kyn.

FKA hefur vigt og finnur fyrir vægi sínu þegar það á sannarlega að fara að fremja jafnréttið, þegar búið er að skuldbinda þjóðina til að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Gefur það vísbendingu um að félagið verði einn daginn óþarft? Þangað til verður Félag kvenna í atvinnulífinu FKA í þjónustu við atvinnulífið og stöðugu samtali við hagsmunaðila svo að samfélagið njóti sérfræðiþekkingar og reynslu kvenna. Við trúum á fjölbreytni til að mæta þörfum fjölbreytilegs samfélags og viljum sjá fólk af öllum kynjum, þjóðum, aldri og búsetu í áhrifastöðum. Þetta mjakast. Nýtum tækifærin. Til hamingju með afmælið Félag kvenna í atvinnulífinu FKA!

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu FKA.