Fyrir viku var rætt við Ingibjörgu Þórðardóttur í Fréttablaðinu. Ingibjörg, sem starfar fyrir CNN í Bretlandi, minnti okkur á að forréttindi eru margþætt og að það sé hollt að minna sig á eigin forréttindi, ef einhver eru.

Fordómar forréttindafólks

Undanfarið hafa málefni transfólks og kynsegin fólks verið áberandi. Það biður um viðurkenningu frá samfélaginu. Eftir að hafa fylgst með baráttumálum þess sé ég betur hve lituð ég var af eigin fordómum, því fáfræði er undirrót fordóma.

Rót fordóma er að hluta til komin frá okkur foreldrunum, sem byrjum að flokka börnin okkar í tvö hólf áður en þau fæðast, strax við sónarskoðun. Eða eins og franski mannréttindafrömuðurinn Simone de Beauvoir orðaði það: „Konur fæðast ekki, þær eru búnar til“ og vísaði til þess að við stýrum gjarnan hegðun þeirra og umhverfi til að verða konur. Og strákum til að verða að körlum.

Nú vitum við að ekki eru alltaf augljós skil milli kynjanna. Mannfólkið fæðist alls konar. Karlar með Klinefelter heilkenni fæðist til dæmis með auka kvenlitning og reglulega fæðast börn með millikyn (e. Intersex, hermaphrodite) þar sem bæði karl- og kvenkynfæri eru til staðar í einhverju formi. Í Louvre safninu er að finna höggmynd af gríska goðinu Herm­afródítus, sem er sýndur okkur með læri, brjóst og hárgreiðslu kvenmanns en karlmanns kynfæri.

Líffræði en ekki hugmyndafræði

Kynhormónar á fósturskeiði geta ákvarðað kynvitund okkar. Stanford-prófessorinn Robert Sapolski hefur tekið saman rannsóknir sem sýna að hægt er að breyta kynhegðun dýra. Til dæmis ef kvenkyns apar fengu testósterón á fósturstigi, litu þeir út og hegðuðu sér eins og karlkyns apar en með kvenlíffæri.

Læknisfræðin hefur kennt okkur að það sama á við okkur mennina. Ákveðin röskun á hormónastarfsemi hjá konum lætur þær fæðast með óræð kynfæri og jafnvel karllega hegðun. Og þær eru líklegri til að vera trans- eða samkynhneigðar. Með lyfjum var hægt að koma jafnvægi á hormónabúskap þeirra, en kynvitund þeirra hélst óbreytt.

Barn getur einnig fæðst sem drengur en litið út sem stúlka. Barnið er því venjulega alið upp sem stúlka þar til kemur í ljós að eistu eru inni í kviðarholi og engir eggjastokkar til staðar. Barnið hefur kvenlega eiginleika og er líklegra til að verða samkynhneigt, upplifa sig í röngum líkama eða jafnvel geta hvorki tengt sig við karl- né kvenkyn.

Það að upplifa sig í kyni sem samræmist ekki kyneinkennum er því mun líklegra til að vera líffræðilegt, en ekki hugmyndafræðilegt val, eins haldið hefur verið fram. Kynvitund er því líklega ákvörðuð á fósturstigi og mótast bæði af eigin hormónum og hormónum móðurinnar, en heimurinn sem móðirin lifir í hefur einnig áhrif á fóstrið.

Framför í mannréttindum

Það er því ekki að ástæðulausu að þann 29. maí 2019 hætti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) að flokka transfólk með geðröskun. Þann 6. júlí sama ár tóku gildi ný lög á Alþingi um kynrænt sjálfstæði og hlutlausa skráningu á kyni. Markmið laganna er að kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.

Nýlegar rannsóknir sýna að mun fleiri teljast til transfólks en áður var talið og að transfólk býr oft á jaðri samfélagsins. Það upplifir gjarnan fordóma, ójöfnuð, útskúfun, ofbeldi og fær almennt verri heilbrigðisþjónustu.

Við sem tilheyrum þeim hópi sem hefur kyneinkenni sem samræmast kynvitund, erum forréttindafólk. Við þurfum að horfast í augu við eigin fordóma og taka þátt í baráttu jaðarfólksins fyrir samfélagi sem býður alla þegna þess velkomna.