Það er hálf undarlegt og eiginlega illskiljanlegt, þegar góðir menn og gegnir, skynsamir menn, tjá sig með þeim hætti, að Atlantshafsbandalagið, NATO, full aðild og þátttaka í starfi þess, sé flott mál og fínt, en full aðild að ESB kolómögulegt áform, sem hafna beri.
Það er nefnilega svo, að í grundvallaratriðum eru það nákvæmlega sömu bræðra- og vinaþjóðirnar okkar, sem standa að báðum þessum bandalögum. Í þeim skilningi er hér um nákvæmlega sama vina- og samstarfshópinn að ræða. Sömu vinirnir, sömu samherjarnir.
Í báðum tilvikum eru skuldbindingar okkar miklar, við verðum um margt að fylgja sameiginlegri stefnu, sem við eigum fullan þátt í að móta hjá NATO, gætum líka átt hjá ESB, ef við værum þar inni, en á móti koma öryggi og margvíslegir kostir og réttindi, sem vega þyngra.
Í NATO eru meðlimaríkin 30, og þau 4 evrópsku ríki, sem þar eru, en ekki í ESB, Albanía, Svartfjallaland, Norður Makedónía og Tyrkland, eru með öllum krafti og öllum ráðum að reyna að komast inn í ESB líka.
Í ESB eru nú 27 ríki, þar af 21 í NATO, og EES-ríkin Ísland og Noregur eru auðvitað líka í NATO.
Hvert er svo hlutverk þessara tveggja bandalaga og hverjir eru kostirnir við aðild?
- NATO gætir sameiginlegra varna, öryggis og sjálfstæðis aðildarríkjanna
- ESB gætir sameiginlegra mannréttinda í aðildarríkjunum
- ESB gætir líka sameiginlegra efnahagsmála og velferðar þeirra
- ESB gætir enn fremur öryggis fyrirtækja aðildarríkja, atvinnustarfsemi og almennings (með alls konar háum CE-stöðlum, sem tryggja öryggi og gæði hverskyns áhalda og verkfæra, allra véla og farartækja, allrar innfluttrar matvöru, alls fatnaðar o.s.frv., en CE-merkið blasir auðvitað við okkur á hvers konar varningi, sem gæða- og öryggisstimpill fyrir notandann eða neytandann)
- ESB tryggir samkeppni, neytendarétt og neytendavernd í aðildarríkjunum (það hefur knúið fram sanngjörn símakjör fyrir alla ESB- og EES símanotendur, styrkt réttindi ferðamanna gagnvart flugfélögum og annarri ferðaþjónustu, tryggt neytendum sanngjörn þjónustugjöld banka, tryggt sameiginlega sjúkraþjónustu allra ESB- og EES-borgara o.s.frv.)
- ESB gegnir forystuhlutverki í því, að tryggja þegnum aðildarríkjanna frelsi til orðs og æðis og mesta mögulega lýðræði í álfunni
- ESB ver þegna aðildarríkja gegn einokun og markaðsmisnotkun stórfyrirtækja og alþjóðlegra auðhringja
- ESB er leiðandi afl í uppbyggingu menntunar og menningar í aðildarríkjunum
- ESB leiðir tæknilega framþróun, innleiðingu stafrænna lausna og fjármögnun framtíðartækni í aðildarríkjunum
- ESB gegnir algjöru forystuhlutverki meðal aðildarríkjanna, hvað varðar umhverfisvernd og minnkun mengunar og eiturefna, spillingu lofts, láðs og lagar, eyðingu dýra, náttúru og skóglendis, ekki bara í Evrópu, heldur um allan heim
- ESB tryggir sameiginleg ytri landamæri álfunnar
- ESB tryggir þegnum aðildarríkjanna mestu mögulegu réttindi og möguleika til ferðalaga og viðskipta meðal þjóða og bandalaga utan ESB
Nú er það auðvitað svo, að Bandaríkin og Kanada eru líka í NATO, án þess að vera í ESB. Náinn viðskipta- og samvinnusamningur, fríverzlunarsamningur, er hins vegar kominn á milli ESB og Kanada, sem tók 7 ár að fullgera.
Svipaður náinn viðskipta- og samstarfssamningur var líka í burðarliðunum milli ESB og USA, meðan Obama sat þar við stjórnvölinn, og eflaust fara þær umleitanir aftur af stað, ef demókratar halda völdum í USA.
Það breytir þó ekki því, að Evrópa, nú ESB og NATO, bæði bandalögin með höfuðstöðvar í Brüssel, verða að tryggja eigin evrópskar lausnir og framtíðarvelferð, hagsmuni og öryggi, þar sem valdataka manns, eins og Donalds Trump, getur aftur átt sér stað í USA, en menn eins og hann geta kippt fótunum undan NATO, Atlantshafssamstarfinu, og reyndar annarri alþjóðasamvinnu.
Allir þeir, sem eru hlynntir fullri aðild okkar að NATO, þar sem við höfum fullan aðgang að umræðu og ákvörðunum, getum látið rödd okkar heyrast, sem fullgilt aðildarríki, ættu að styðja fulla aðild okkar að ESB, með sama hætti, en ávinningur okkar af fullri aðild þar er í raun ekki síður mikilvægur, jafnvel meiri.
Með fullri aðild, fengjum við 6 menn á Evrópuþingið og okkar eigin kommissar, ráðherra, af þá 28 í framkvæmdastjórninni, en allar aðildarþjóðirnar hafa einn ráðherra hver, líka Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, allar bara einn.
Ef við sendum góðan mann, eða konu (þó að þær séu fyrir mér menn líka), til Brüssel, er ekki loku fyrir það skotið, að okkar fulltrúi gæti orðið forseti framkvæmdastjórnarinnar, á sama hátt og Jean-Claude Juncker, frá öðru smáríki, Lúxemburg, var um langt árabil forseti og með honum á valdastóli Donald Tusk, frá Póllandi, sem heldur ekki er eitt af stærstu ríkjum ESB.
Þar áður var José Manuel Barroso, frá Portúgal, 10 milljón manna landi, forseti framkvæmdastjórnarinnar, en ESB velur ekki menn í valdastöður eftir stærð landanna, sem þeir koma frá, heldur eftir hæfileikum, kostum og getu einstaklingsins.
Höfundur er samfélagsrýnir og alþjóðlegur kaupsýslumaður.