Thomas Möller skrifaði bakþanka á fimmtudaginn þar sem hann spyr hvort mjólk er góð?

Já mjólk er góð! Þar er um að ræða einn næringarríkasta drykk sem er fáanlegur. Hann inniheldur mörg af þeim næringarefnum sem manneskja þarf. Ef þú átt 500 kr. í vasanum er þeim peningum líklega einna best varið í mjólkurpott og íslenskt grænmeti.

Landbúnaður er á öllum stöðum heimsins verndaður og varinn af ríkjum heims með mismunandi hætti. Sem dæmi er áætlað að 45% af framleiðslukostnaði mjólkur hafi verið greiddur með ríkisstuðningi í Bandaríkjunum árið 2016. Þessi prósenta er 33 á Íslandi.

Ef við beinum svo sjónum okkar að tollum. Í dag eru nærri því 90 prósent tollskráanúmera sem ekki bera toll við innflutning á vörum til Íslands. Þessi tala er aðeins 26 prósent í ESB-ríkjunum samkvæmt WTO, alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það er því aðeins tollur í dag á þeim vörum sem Ísland hefur samfélagslega hagsmuni af að vernda, innanlandsframleiðslu. Ef skoðaður er meðaltollur ESB og Íslands er hann 4,6 prósent á Íslandi samanborið við 6,3 prósent hjá ESB. Ef við horfum á einstaka tollsamninga sem gerðir hafa verið um til dæmis osta, má sjá að viljir þú flytja inn osta frá ESB er hægt að flytja inn án tolla 610 tonn af ostum til Íslands á hverju ári. Ef Íslendingar ætluðu að flytja út ost til ESB á móti, væri sú heimild einungis 50 tonn. Það er því augljóst að Ísland er mjög opið fyrir viðskiptum, kannski of?

Rúmlega þúsund fjölskyldur hafa afkomu beint af mjólkuriðnaðinum á Íslandi, þetta er án allra afleiddra starfa, sem telja í kringum landbúnaðinn í heild um 6000-7000 manns. Það væri hægt að hætta stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu og flytja inn vörurnar, en þá væri verið að kasta krónunni fyrir aurinn. Það eru aðeins 4 mánuðir síðan að stjórnvöld könnuðu birgðastöðu matvæla og matvælaframleiðenda í landinu, vegna COVID-19. Mjólkuriðnaðurinn var þar skilgreindur strax sem þjóðhagslega mikilvægur. Matvæli teljast til grunnþarfa hvers manns.

Það er eins og sjá má stórt hagsmunamál fyrir þjóðir að hafa sterka innlenda framleiðslu. Við kúabændur styðjum innlenda framleiðslu, líka á sælgæti, en það verður að gæta þess að fólk fái laun við hæfi fyrir vinnuna. Velferð, laun og aðbúnaður á Íslandi er ekki sambærilegur ódýrari framleiðslusvæðum í heiminum. Það væri vel ef allir gætu staðið með íslensku vinnuafli, alla keðjuna frá haga í maga. Þakka má fyrir skynsemi lýðræðislega kjörinna stjórnvalda í gegnum tíðina, sem hafa ekki breytt stuðningi sínum, sérstaklega fyrir mjólkina, enda er mjólk góð!