Á dögunum fékk samfélagsmiðlaraus undirritaðrar óvenju mikla athygli og undirtektir. Þegar ég birti mynd af strætóskýlisauglýsingu fyrir haframjólk, þar sem slagorðið „It’s like milk but made for humans“ blasti við, og lagði til mun betra slagorð á íslensku: „Eins og mjólk en gerð fyrir fólk,“ gerðust hlutirnir hratt. Þegar svo almannatengill og íslenskufræðingur stukku á vagninn og vöktu frekar máls á fásinnunni og já, lögbrotinu, var umræðan komin á fullt.

Heildsalanum var send formleg kvörtun þar sem vísað var í 6. grein laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þar sem segir orðrétt: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Viðbrögðin voru fumlaus og var enskunni skipt út fyrir mun þjálli íslensku, um allan bæ.

Varan og vörumerkið fékk vissulega mikla athygli sem innflutningsfyrirtækið hefur nýtt sér. Og hver veit nema það hafi alltaf verið ætlunin. En það sem meiru skiptir er að umræðan fékk verðskuldaða athygli. Íslenskri tungu hefur aldrei staðið eins mikil ógn af ensku og nú. Samfélagsmiðlar, YouTube-notkun ungu kynslóðarinnar, erlendar streymisveitur og taumlausar tilraunir fyrirtækja til að ná til þess flóðs ferðamanna sem hingað streymir, gera það að verkum að við erum mörg hver orðin samdauna enskunni.

Ef gengið er um miðbæinn blasir enskan alls staðar við: American Bar, English Pub, Brew Dog, Duck & Rose, Lebowski bar, Noodle Station, Bastard, Punk, Monkeys, Scandinavian Bar, Public House og svo mætti lengi telja. Ætli eigendur þessara staða óttist að ferðamenn rati ekki inn um dyrnar ef íslensk heiti eru notuð, eða er einfaldlega um tískubylgju að ræða? Ætli bankastjórnendur telji að erlendir viðskiptavinir finni ekki útibúið ef það er merkt „banki“ í stað „bank“? Ég veit það ekki og það skiptir litlu.

Ég veit þó að það eru ekki aðeins íslenskumælandi sem tapa á hnignun íslenskrar tungu. Sjarminn við að heimsækja litla þjóð á norðurhjara fölnar þegar amerísk áhrif eru alltumlykjandi enda reyna heimsborgarar á faraldsfæti oftar en ekki að sneiða fram hjá stöðum sem hafa verið sérsniðnir að þeim og leita frekar að gullmolum sem heimamenn sjálfir sækja.

Gjörbreyttar aðstæður íslenskrar þjóðar kalla á að við stöndum vaktina þegar kemur að tungumáli okkar – og gerum það með stolti. Með því að glutra niður okkar ástkæra ylhýra tungumáli eru það ekki bara við sem töpum – það gera það allir og það tap er óafturkræft.