Hugtakið námsorðaforði hefur fengið vaxandi athygli í umræðu hér á landi. Kemur það til vegna þess að rannsóknir, erlendar og innlendar, sýna sterk tengsl á milli orðaforða nemenda og árangurs í námi. Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, leggur áherslu á mikilvægi þess að efla námsorðaforða íslenskra nemenda, til að þeir standist alþjóðlegan samanburð í lesskilningi.

En hver er íslenskur námsorðaforði, hvernig lærist hann og hvernig getum við metið hann?

Námsorðaforði tilheyrir tungumáli skólastarfsins og liggur til grundvallar námsframvindu á öllum sviðum.

Með námsorðaforða er átt við þekkingu á orðum sem eru umfram algengustu orð tungumálsins. Þau eru notuð og eru nauðsynleg þegar fjallað er um ákveðin efni á djúpan, innihaldsríkan hátt. Slík orð koma sjaldan fyrir hvert og eitt og eru ótal mörg. Námsorðaforða má skipta upp í nokkra flokka:

1. samheiti algengra orða með einfalda merkingu: piltur í stað strákur;

2. orð með flóknari merkingu: orsakir og afleiðingar, framvinda og velgengni;

3. orð sem tengjast áhugamálum eða ýmsum daglegum störfum: skíðasvæði, naglbítur, piparkvörn;

4. safn merkingarlega skyldra hugtaka: leikföng, verkfæri og matvæli;

5. orðasambönd: fara á fætur, taka djúpt í árinni;

6. orðaforði tiltekinna námsgreina: spendýr og ljóstillífun, landbúnaður og iðnaður.

Ung börn bæta auðveldlega sjaldgæfum orðum með einfalda merkingu í safnið sitt. Ef þau umgangast fólk sem notar orð eins og stúlka, snæða, narta, kroppa og príla þá læra þau slík orð og nota jafnvel sjálf. Orð af þessu tagi bætast einnig í safnið í gegnum lestur. Fái börn að taka þátt í daglegu amstri með fullorðnum læra þau enn fleiri orð: steikarpanna, sláttuvél, skrúfjárn. Við sjö til níu ára aldur geta börn lýst hlutum, t.d. litum, stærð, lögun og hraða, greint það sem er líkt og ólíkt og flokkað hluti eftir eiginleikum eða/og hlutverkum.

Í skólastarfi þarf að vinna markvisst með orð sem tilheyra námsorðaforðanum. Þau eru svo mörg og koma svo sjaldan fyrir að líkurnar á að þau lærist af sjálfu sér eru hverfandi. Ef námsorðaforða er ekki sinnt er veruleg hætta á að frumskógarlögmálið verði ríkjandi í skólasamfélaginu.

Þegar orð með flókna merkingu eru notuð og orð námsgreina eru tekin fyrir eiga börn með góðan orðaforða auðveldara með að tileinka sér efnið og læra ný orð. Börn sem hafa ekki fengið ríkulegt máluppeldi og börn sem nota ekki íslensku heima sitja eftir, þekking þeirra vex hægar. Hin ríku verða ríkari og hin fátæku fátækari.

Markviss vinna með námsorðaforða byggir á vitneskju um það hver íslenskur námsorðaforði er, hvaða orð á að kenna á hverju stigi námsins og hve mörg orð. Grundvöllur að slíku starfi er að byggt sé á orðasafni sem unnið er úr rituðu efni samtímans, svokölluðum málheildum. Íslensku málheildirnar Mörkuð íslensk málheild og Risamálheildin geta nýst sem grunnur að slíku starfi. Þar er orðum raðað á lista eftir tíðni þeirra. Algengasta orð íslenskunnar er númer eitt og svo koll af kolli. Enskar rannsóknir hafa leitt í ljós að algengustu 2000–3000 ensku orðin tilheyra daglegu máli. Það eru því orð sem eru sjaldgæfari sem þarf að vinna með sérstaklega. Enskar rannsóknir hafa leitt í ljós að við 18 ára aldur þurfa nemendur að þekkja 80.000 orð til að ná tökum á framhaldsnámi. Mörkuð íslensk málheild og Risamálheildin innihalda meira en milljón íslensk orð.

Enn hafa ekki verið gerðar rannsóknir á því hver íslenskur námsorðaforði er nákvæmlega og hvort samræmi sé í tíðni orða í skólastarfi og í ofangreindu íslensku málheildunum. Við þurfum að auka þekkingu okkar á íslenskum orðaforða svo hægt sé að vinna með orð í skólastarfi sem líklegt er að komi fyrir náminu og í lífi og starfi í framtíðinni. Óformleg könnun á meðal háskólanema vakti efasemdir um hvort þeir hafi fengið næg tækifæri til að læra mikilvæg orð í grunn- og framhaldsskóla. Nemendurnir voru beðnir að hlusta á þáttinn Vikulokin á Rás 1 og skrá öll orð sem þeir skildu ekki. Orðin framvinda, gróinn, stofnframlag, neyslustýring, andagift, uppgangur, kapítalistar og eldmóður komu oftast upp. Ekki var kannað hvort þessi orð hafi leikið það stórt hlutverk að umfjöllunarefnið hafi ekki skilist nægilega.

Það má ekki vera tilviljunum háð hvaða orð og hversu mörg orð er unnið með í skólastarfi. Við þurfum líka að gæta þess að börn bæti jafnt og þétt við námsorðaforða sinn til að þau séu virkir námsmenn og nái markmiðum sínum. Enn eru ekki til íslensk orðaforðapróf sem taka mið af málheildum, hvorki próf sem meta orðskilning né orðanotkun, en slíkt er til m.a. fyrir enskt tungumál. Til að efla íslenskan námsorðaforða þurfum við að rannsaka hver hann er, þróa leiðir til að efla hann og meta framfarir nemenda.