Íslenskt stjórnmálafólk sem berst nú um sæti á framboðslistum af ákafa rómverskra skylmingaþræla hefur fulla ástæðu til að öfunda hinn breska Palmer lávarð. Ekki aðeins á Palmer lávarður 100 herbergja óðalssetur þar sem er að finna eina silfurslegna stigahandrið veraldar, heldur mun Palmer lávarður aldrei þurfa að taka þátt í prófkjöri eða hljóta náð fyrir augum uppstillinganefndar. Það eina sem Palmer lávarður þurfti að gera til þess að tryggja sér sæti í efri deild breska þingsins var að eiga frænda sem dó.

Palmer lávarður er einn af 85 aðalsmönnum sem eiga sjálfkrafa sæti í lávarðadeild breska þingsins, vegna þess eins að einhvern tímann síðustu þúsund ár datt kóngi eða drottningu í hug að gefa forföður þeirra land og fínan titil.

Breska dagblaðið The Sunday Times stóð nýverið að ítarlegri tölfræðiúttekt á lávarðadeildinni. Í ljós kemur að þeir sem erfa þingsæti teljast seint þverskurður þjóðarinnar sem þeim er ætlað að setja leikreglur. Meðalaldur þeirra sem sitja í erfðasætum er 71 ár. Jafnmargir eru eldri en níræðir og undir fimmtugu. Tæplega helmingur þeirra fór í fínasta heimavistarskóla Bretlands, Eton. Samtals á hópurinn 70.000 hektara lands. Allir eru þeir karlmenn því aðeins elsti sonur eða karlkyns skyldmenni geta erft þingsætið.

Í lávarðadeildinni eru rúmlega 800 þingsæti sem gerir löggjafarsamkunduna þá næststærstu í heimi á eftir Alþýðuþingi Kína. Tíu prósent sætanna erfast. Í hin er skipað til lífstíðar eða þau falla ákveðnum embættismönnum í skaut. Þingmenn í erfðasætum taka sjaldnar til máls en þeir sem eru skipaðir, mæta verr og rukka þingið um hærri fjárhæðir í formi ferðastyrkja og dagpeninga. Á síðasta ári fékk Brabazon lávarður, barnabarn flugvélaráðherra Winstons Churchill, 30.361 pund í dagpeninga, sem samsvarar meðalárstekjum í Bretlandi. Hann tók ekki einu sinni til máls á þinginu.

Hættuleg umræða

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sakaði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um „sýndarmennsku“ á Alþingi í vikunni. Var tilefnið auðlindaákvæði stjórnarskrárfrumvarps forsætisráðherra sem Þorgerður Katrín sagði „ekkert bit vera í“. Hún sagði ákall almennings skýrt um „að láta ekki sjávarútveginn verða út undan.“

Breskir þingmenn sem erfa sæti sín eiga sér sína málsvara. Bera þeir því við að kerfið sé hluti af breskri sögu og að varanleiki þingsætanna geri þeim kleift að sýna meira hlutleysi en aðrir. Útreikningar The Sunday Times sýna þó annað. Þegar þingmenn í erfðasætum kveða sér hljóðs í lávarðadeildinni eru þeir 60 prósent líklegri en skipaðir þingmenn til að brydda upp á málefnum sem varða persónulega hagsmuni þeirra sjálfra. Palmer lávarður, hluthafi í tóbaksfyrirtæki, er til að mynda ötull talsmaður þess að slakað verði á reglugerðum um sölu á tóbaki. Hann segir að yrðu reykingar bannaðar „hryndi efnahagskerfi landsins til grunna“.

Talsmenn annars kerfis sem, rétt eins og erfðasætin í lávarðadeildinni hvílir á handahófskenndri gjöf í fortíð, taka ekki síður djúpt í árinni er þeir leitast við að verja óbreytt ástand. „Umræða um að gera um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu ... get­ur bein­lín­is verið hættu­leg,“ sagði í frétt um skýrslu sem unnin var að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra og var birt í vikunni. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sögðu í umsögn um stjórnarskrárfrumvarpið að „varanleiki“ væri „einn af hornsteinum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.“

Árið 1997 hóf Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra, vinnu við að leggja erfðasætin í lávarðadeildinni af. Nú, meira en 20 árum síðar, er kerfið enn við líði. Hyggjumst við Íslendingar þrefa um auðlindaákvæði og kvótakerfi næstu 20 ár á meðan íslenskur erfðaaðall festir sig enn frekar í sessi? n