Ein athyglisverðasta þversögnin í þjóðmálaumræðunni á Íslandi er viðvarandi ótti eyjaskeggja við alþjóðleg viðskipti á sama tíma og það liggur fyrir að hagsæld Íslands hefur á öllum tímum komið að utan.

Líkast til hefur þjóðin ekki þorað að viðurkenna þessi sannindi af því þau eru á skjön við sjálfsmynd hennar. Lengst af hefur það nefnilega hljómað betur í eyrum hennar að landsmenn séu sjálfum sér nógir, hafi allt til að bíta og brenna, á landi jafnt og legi og þurfi ekki á öðrum að halda, hvorki konunglegu né klerklegu valdi, hvað þá kaupmannsnefnum að utan sem aldrei hafa selt þeim annað en maðkað mjöl.

Og leiðarstefið í gegnum tíðina hefur látið ljúflega í eyrum, hringinn í kringum landið; ef það fæst ekki í kaupfélaginu þarf maður ekki á því að halda.

Þessi heimóttarlega einangrunarhyggja hefur verið varin með þeim aldalanga rökstuðningi að útlendingar séu varasamir og vilji ýmist ræna kostum lands og sjávar eða landsmönnum sjálfum – og því hafi góðir Íslendingar þurft á öruggu skjóli að halda, jafnt öldum saman og öllum stundum. Og mikil guðsblessun hafi það verið allan tímann frá landnámi að eiga ekki landamæri að öðrum og illa rætnum þjóðríkjum, en úthafið allt í kring hafi verndað fólk og fénað fyrir alls kyns pestum og óáran og haldið ræningjunum í burtu, svona oftast nær.

Síðari tíma rannsóknir á vegum hagfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga hafa afhjúpað þessa aldalöngu og sauðtryggu aðdáun á ágæti útnáramennskunnar sem algera rökvillu, því þvert á móti hafi Íslendingar aldrei rétt betur úr kútnum en einmitt þegar þeir hafa grætt hvað mest á útlendingum.

Í nýjustu rannsókninni af þessu tagi fer Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands fyrir flokki fræðimanna sem kannað hafa viðhorf Íslendinga til alþjóðasamskipta. Niðurstöður hennar benda eindregið til þess að mikilvægi þeirra fyrir Íslendinga hafa verið vanmetin, auk þess sem kostnaður við þau hafi verið ofmetinn.

En orðræðan hafi samt sem áður ekkert breyst; allt það illa komi enn að utan – og jafnvel þótt landinn viti betur – og hafi kannski alltaf vitað – að verslunarsamningar við útlönd og erlend fjárfesting hafi skilað þeim mestu uppgripunum og auðlegðinni, þá skal óttinn áfram vera öðru yfirsterkara.