„Ég þrái frelsið,“ er algengt svar frá fólki sem hneppt er í fjötra fíkniefna. Enn sem komið er hef ég ekki hitt þá manneskju sem ætlaði sér markvisst að ánetjast fíkniefni. Yfirleitt byrjar þetta með fikti og áður en maður veit af hefur fíkniefnið náð heljartökum á heilabúinu. Hjá langflestum gerist þetta fyrir 25 ára aldur – áður en framheilinn hefur tekið út fullan þroska til að hafa vit fyrir okkur.

Ásamt áfengi er nikótín algengasta fíkniefnið sem fólk ánetjast, enda hvort tveggja löglegt. Síðustu ár hafa nikótínpúðar sveimað um skólahverfin líkt og lúsmýið í sumarbústaðahverfunum. „Íslenski draumurinn“ er orðinn að veruleika. Kaupsýslumenn mala gull líkt og Tóti í bíómyndinni. Sala á búlgörsku sígarettunum gaf svo vel að Tóti keypti sér íbúð, Range Rover og jakkaföt. En peningar eiga það til að byrgja sýn á það sem rétt er, enda þekkt að eina fólkið sem neitar skaðsemi nikótíns eru framleiðendur og sölumenn þess. Ákveðin tímamót urðu þó í fyrra þegar rafsígarettuframleiðandinn Juul játaði sök. Juul sættist á að borga sem samsvarar 62 milljörðum króna fyrir að beina markaðssetningu nikótíns til barna undir lögaldri og gera lítið úr skaðsemi þess. Þetta voru smápeningar fyrir Juul.

Ljóst er að fíkniefnið nikótín sem nú herjar á börnin er ekkert að fara á næstunni. Líkt og í bíómyndinni „Íslenski draumurinn“ bjóða sölumenn nikótíns sífellt fram nýjar og spennandi vörur. Því er mikilvægt að vera upplýstur og klukkan 20 í kvöld verður málþing í Hörpu um áhrif nikótíns á heilastarfsemi og heilsu barna. Það er okkar fullorðna fólksins að vísa unga fólkinu veginn að frelsi frá fíkninni. Verið hjartanlega velkomin!