Enn eina ferðina er íslensk þjóð að fá alvarlega ofanígjöf erlendis frá fyrir að vera úr takti við almennt viðurkennd mannréttindi. Í þetta sinn – og langt í frá í fyrsta sinn – eru það lögregluyfirvöld og íslenskir dómstólar sem fá á baukinn og ekki verður annað séð en að bæði ríkisvaldið og hið svokallaða fjórða vald fjölmiðlanna hafi alla tíð sett kíkinn fyrir blinda augað. Amnesty International hefur að lokinni ítarlegri skoðun gefið út það álit sitt að á Íslandi sé einangrun í gæsluvarðhaldi beitt sem vísvitandi pyntingartæki. Það sem ekki er einungis látið viðgangast hér á landi heldur beinlínis stundað er t.d. með öllu bannað í Bretlandi og lágmarkað með öllum tiltækum ráðum í í öðrum viðmiðunarlöndum okkar. Hjá okkur, „góða fólkinu á Íslandi“, er hins vegar hefð fyrir því, nánast samofið lögreglumenningu okkar, að halda fólki í slíkri einangrun ekki bara dögum saman heldur oft og tíðum vikum eða jafnvel mánuðum saman.

Álitsgjöf Amnesty International um vinnubrögð lögreglunnar og sjálfvirkar undirtektir dómsvaldsins þegar um einangrunarvist gæsluvarðhaldsfanga er að ræða er enn eitt áfallið fyrir það góða og kærleiksríka samfélag sem við viljum ávallt trúa að við höfum byggt upp á Íslandi. Við hikum ekki við að úrskurða börn í einungrunarvist og af því að hér er ekkert kvennafangelsi eru konur látnar dúsa árum saman í fangelsi á Hólmsheiði við aðstæður sem jafnvel hörðustu karlar brotna undan á örfáum vikum. Við látum gæsluvarðhaldsfanga vera án nokkurs samneytis við fólk og án annars útsýnis en í besta falli eingöngu til himins svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir. Um er að ræða skýr mannréttindabrot skv. sáttmála Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist án skilyrða en þverbrjótum margsinnis í hverjum mánuði. Brotavilji lögreglunnar er einbeittur, meðvirkni dómstólanna algjör, þegjandi samþykki stjórnvalda æpandi og aðhald fjölmiðla ekkert.

Pyntinganefnd Sameinuðu þjóðanna lokaði fangelsi okkar við Skólavörðustíg eftir að hafa margsinnis veitt okkur undanþágu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað gert íslenska dómstóla afturreka með úrskurði sína. Lögreglan hefur aldrei látið sér segjast þegar hún hefur verið gagnrýnd fyrir harkalega framgöngu hvað gæsluvarðhaldsúrskurði varðar. Við vitum um þessar brotalamir en gerum ekkert í þeim. Hvenær breytist það?

Skýrsla Amnesty International er að mínu viti afar vönduð. Til viðbótar við að draga upp mynd af grafalvarlegu ástandi á Íslandi gerir hún líka góða grein fyrir því hve stór ákvörðun það er að taka frá fólki öll bjargráð með því að aftengja það með öllu frá samskiptum við annað fólk, aðgengi að hvers kyns fjölmiðlum, a.m.k. lágmarkstengingu við náttúru o.s.frv. Ýmis vægari úrræði eru til staðar ef verja þarf rannsóknarhagsmuni og er einnig gerð grein fyrir þeim í skýrslunni.

Í hnotskurn blasir það við að íslenska réttarríkið brýtur alla daga ársins mannréttindi á miklum fjölda fólks. Við göngum miklu harðar fram á ýmsum sviðum en nágrannaþjóðir okkar myndu nokkurn tíma líða. Við erum í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum langt á eftir mörgum þeirra samfélaga sem við viljum miða okkur við og teljum okkur jafnvel trú um að við stöndum jafnfætis. Svo er því miður ekki í þessu tilviki. Langt í frá.

Höfundur er lögmaður.