Um íslensku þjóðina verður seint sagt að hún kunni afburðavel að rökræða. Fjölmargir þjóðfélagshugsuðir hafa tekið eftir því í gegnum tíðina hversu ömurlegir Íslendingar eru í þeirri list að kryfja mál til mergjar. Flestar þær deilur sem einkenndu barnæsku mína í þjóðfélagslegu tilliti eru enn deilur dagsins í dag. Kvótinn. ESB. Einkavæðing heilbrigðisþjónustu. Flugvöllurinn. Landbúnaðarkerfið.

Listinn er langur og allt er meira og minna án niðurstöðu. Sé upp á þessum málum bryddað í boðum er jafnvíst og áður að boðið hverfist í tvær fylkingar með tilheyrandi fingrabendingum og upphrópunum. „Þú sagðir!“ „Nei, þú sagðir!“ „Má ég klára!?“ „Óþarfi að æpa á mann!“

Og svo framvegis.

Ég hef æði oft staðið í hringiðu slíkra deilna í eldhúspartíum og játa mig fúslega sekan um að espast iðulega upp og verða full beittur, svo ófært er jafnvel að ljúka orðaskakinu öðruvísi en með auðmjúkri afsökunarbeiðni á Messenger daginn eftir og langri útlistun á því hvernig maður hafi ekki verið með sjálfum sér. Allir Íslendingar kannast við þetta.

Svo rammt kveður að þessu stundum – þessari vangetu þjóðarinnar til skoðanaskipta – að heilu byggðarlögin á afskekktum stöðum á landinu hafa lítið sem ekkert talast við í árhundruð, bændur í gnauðandi veðravítum og hráslaga yrða ekki hver á annan þótt engir búi í dalnum aðrir en þeir og fjölskyldur þurfa kvíðameðferð út af væntanlegum fermingarveislum.

Af öllum þessum sökum var það svo ótrúlega skiljanlegt að síðasta kosningabarátta skyldi í raun og veru ekki fjalla um neitt. Slagorðin voru svona: Stöðugleiki. Loftslagsaðgerðir. Betra líf. Tækifæri. Lýðræði. Slagorðin mynduðu að þessu sinni einhvers konar rammgerðan virkisvegg til að koma í veg fyrir deilur.

Um þessi orð var ekki hægt að deila. Enginn vildi deila. Svo yfirgripsmikil er hin samfélagslega meðvitund um fánýti íslenskra deilna, að jafnvel í kosningabaráttu stjórnmálaflokka til Alþingis var reynt eftir fremsta megni að sneiða hjá rökræðum um öll helstu álitamál þjóðarinnar með því að hafa slagorðin eins þýðingarlítil og hægt er.

Í eftirleik kosninganna hefur verið reynt eins og kostur er að deila ekki um hvort talningin í einu kjördæminu hafi verið rétt. Allir eru að vanda sig. Málið rannsakað. Formaður yfirkjörstjórnar er þó hrokkinn í gírinn virðist vera með nýlegu svarbréfi sem efnislega má túlka á þann veg að hann hafi ekki gert neitt rangt og að aðrir, sem gagnrýna hans störf, séu vitleysingar.

Hér stefnir í afsökunarbeiðni á Messenger. Nú má ekki misskilja mig. Mér þykir ákaflega vænt um þjóðarsálina og kannski einkum og sér í lagi þennan krúttlega, bælda blóðhita sem sprengir þurrar varir í frosthörkum. Hið fyndnasta við íslenskar deilur – og kannski deilur víðar um heim – er þó þetta: Á meðan fólk deilir eða reynir að deila ekki, hefur veröldin sinn gang. Hún breytist. Hún þróast. Einhvers staðar eru ákvarðanir teknar. Mál gerast.

Um þetta ætla ég nú að taka dæmi: Halda mætti að eilífðardeilan um inngöngu í Evrópusambandið snerist um það hvort við vildum vera óháð Evrópu, algjörlega sjálfstæð, eða tilheyra samvinnu Evrópuríkjanna. Um þetta getur fólk rifist eins og hundur og köttur, svo mikið að deilan er nánast hætt því fáir treysta sér í hana.

Hið fyndna er þó, að þetta skip er eiginlega löngu farið. Þjóðin er meira eða minna í Evrópusambandinu. Mest af löggjöf okkar kemur þaðan, við njótum evrópskra réttinda og öxlum evrópskar skyldur. Aðeins á eftir að innleiða evrópskan efnahagsstöðugleika og fá kosningarétt innan ESB.

Deilur um opinberan rekstur eða einkarekstur í heilbrigðiskerfinu dúkka líka reglulega upp, og eru sama marki brenndar. Fólk treystir sér varla í rifrildið. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta skip er eiginlega líka farið. Upp undir helmingur kerfisins er þegar einkarekinn og mun stærri ef talinn er með sá hluti velferðarþjónustu sem er í raun rekinn af aðstandendum. Hvort eigi að einkavæða er því að stórum hluta marklaus deila.

Svo er það sæstrengurinn. Er þar komin enn ein eilífðardeilan sem auðveldlega getur splundrað fermingarveislu. Á að leggja orkusæstreng til Bretlands? Halda mætti að deilan snerist um hvort selja eigi útlendingum íslenska orku eða hvort við viljum nota hana alla sjálf. Gaman væri að sjá svipaða rökræðu tekna um þorskinn, en hvað um það. Þessi deila er, eins og hinar, efnislega mjög þýðingarlítil.

Einu sinni, fyrir langa löngu, þegar sæstrengur var ekki mögulegur, var ákveðið að færa útlendingum nánast alla orku Íslendinga í gegnum álverksmiðjur. Það er mun óhagkvæmari og óumhverfisvænni leið en nokkurn tímann sæstrengur þótt hún geri það sama.Svona eru íslenskar deilur undarlegar og skemmtilegar. Mjög heitar. En oft um lítið.En um það má sjálfsagt deila.