Um síðustu helgi stóð Bandalag íslenskra listamanna fyrir málþingi um starfs­umhverfi listamanna og þau alvarlegu áhrif sem sóttvarnir hafa haft á möguleika þeirra til að afla tekna. Að þinginu loknu vandaði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og rithöfundur, ríkisstjórnarflokkunum ekki kveðjurnar. „Ekki einn ráðherra úr ríkisstjórn mætti,“ ritaði Steinunn Ólína á Facebook. „Ekki einn.“

Íslensk stjórnvöld eru ekki þau einu sem virðast hafa gleymt tilvist listastarfseminnar. Bretland gekk úr Evrópusambandinu við upphaf síðasta árs. Í samningaviðræðum um áframhaldandi samskipti við sambandið gleymdist hins vegar að ræða starfsskilyrði hinna skapandi greina. Þótt listastarfsemi sé einn þeirra atvinnuvega sem stækka nú hraðast í Bretlandi og hlutdeild hans af landsframleiðslu sé næstum sex prósent, gerðu bresk stjórnvöld ekkert til að koma í veg fyrir áhrif Brexit á störf bresks listafólks.

Afleiðingarnar hafa reynst margþættar. Nú síðast bárust fréttir af því að kostnaður við vegabréfsáritanir og pappírsvinnu sé að sliga breskt tónlistarfólk sem margt hefur tekjur sínar af tónleikaferðalögum um Evrópu. Í nýrri könnun sögðu 81% tónlistarfólks tónleikaferðalög ekki standa undir sér eftir Brexit og 60% sögðust íhuga að skipta um starfsvettvang.

Kosningabarátta fyrir alþingiskosningar stendur nú sem hæst. Einn stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn, fer fram með slagorðið „land tækifæranna“. Frasinn tengist hugmyndafræðinni um „ameríska drauminn“, loforði um útbreiðslu hagsældar. Upphaflega hugmyndin um ameríska drauminn er þó annars konar hagsæld en sú sem Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin virðast standa fyrir.

Sagnfræðingurinn James Truslow Adams bjó til hugtakið „ameríski draumurinn“. Í bók sinni um sögu Bandaríkjanna sem kom út árið 1931 hélt Adams því fram að Bandaríkin hefðu villst af leið. Adams áleit þráláta áherslu á efnislega velgengni ganga þvert á hugmyndina um „ameríska drauminn um betra og ríkara líf til handa öllum þegnum af öllum stéttum“. Hann sagði ameríska drauminn „ekki aðeins draum um bílaeign og hærri laun“ heldur snerist hann um „andlegt“ ríkidæmi. „Ameríski draumurinn sem lokkaði tugi milljóna frá öllum heimshornum að ströndum okkar var ekki draumur um veraldleg gæði.“ Hann gekk út á „leit að lífi“ en ekki „lífsviðurværi“, hann var leit einstaklingsins að „varanlegu virði tilverunnar“ en ekki verði; ameríski draumurinn hvíldi á stoðum fjölbreytileikans þegar kom að vitsmunalífi, áhugamálum, siðum, venjum, listsköpun og lifnaðarháttum.

Enginn ráðherra sá sér fært að mæta á fund þar sem iðja íslenskra listamanna var rædd. Það var hins vegar ekki þverfótað fyrir ráðherrum á fundi Samtaka iðnaðarins í vikunni. Þar voru bæði forsætis- og fjármálaráðherra mætt til að ræða „niðurstöður úr könnun meðal stjórnenda iðnfyrirtækja“. Hagsæld er ekki aðeins mæld í peningum. Ameríski draumurinn er ekki aðeins efnahagsmál. Alþjóðleg bókmenntahátíð var til að mynda sett í Reykjavík í vikunni og auðgar nú líf fjölda fólks.

En þótt listir séu ekki bara efnahagsmál eru þær líka efnahagsmál. Tíu ár eru liðin frá því að úttekt var gerð á hagrænum áhrifum skapandi greina hér á landi. Leiddi hún í ljós að sex prósent vinnuafls störfuðu við skapandi greinar og að velta þeirra væri meiri en velta landbúnaðar og fiskveiða samanlagt. Niðurstaða skýrslunnar var sú að „skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar“.

Með sniðgöngu sinni hunsa stjórnvöld bæði andlegt og efnahagslegt gildi skapandi greina. Það er ekki ameríski draumurinn. Það er íslenska martröðin.