Það er í takti við annað prinsippleysi í íslensku samfélagi að beggja vegna við strandlengjuna, hringinn í kringum Ísland, er þjóðin að tapa auðæfum sínum.

Fiskurinn í sjónum er orðinn að erfðagóssi örfárra fjölskyldna í landinu. Þær hafa fengið allan kvóta að gjöf frá alþýðu manna. Og það sést einna best á því að kvótaleigan er um 0,33 prósent af því sem útgerðin fær í sinn hlut, en ætti að minnsta kosti að vera fimm prósent.

Hvergi á jörðinni fær efnamesta fólk samfélagsins jafn ofsalegar niðurgreiðslur af hálfu ríkisvaldsins og hér á landi. Og það stórfurðulega í þessu öllu saman er að það er meirihluti fyrir því á Alþingi að halda þessu óbreyttu um ókomin ár.

Og því eru skilaboð valdstjórnarinnar skýr. Hjálpum þeim mest sem hafa það best. Það er íslenska leiðin.

En prinsippin eru ekki bara fokin á haf út. Þau eru einnig að gufa upp inn til landsins.

Í sveitum þess er nýliðun að verða svo til ómöguleg í landbúnaði. Það stafar ekki síst af því að sterkefnaðasta fólkið í landinu, svo og auðjöfrar frá útlöndum eru farnir að kaupa upp tíðfölustu jarðirnar í landinu – og á stundum heilu dalina, ekki síst ef um þá renna eftirsóttar laxveiðiár sem er um að gera að koma í einkaeign.

En nú eru líka aðrir hópar farnir að gera sig fyrirferðarmikla í sveitum landsins. Það eru þeir sem sjá ábatasöm viðskiptatækifæri í skógrækt á víðfeðmum svæðum út til nesja og inn til dala, en með þeim uppvexti geta þeir kolefnisjafnað í þágu lítilla og stórra fyrirtækja. Og þetta er að verða meiri bissnessinn hér á landi.

Ungt og efnaminna fólk, sem langar að hefja búskap, getur ekki gert sér miklar vonir um að keppa um álitlegar jarðir við ofantéða kaupahéðna. Til þess eru bæði jarðirnar, húsa- og vélakostur of dýru verði keypt.

Og auðvitað er það í ætt við annað hér á landi að stórkaupendum jarða á Íslandi er gerður eftirleikurinn til muna auðveldari en lítilmagnans sem ætlar sér að halda landinu í byggð og yrkja þar jörðina fyrir sig og sína.

Það er engin búsetuskylda á jörðum hér á landi, eins og til dæmis í Danmörku og víðar í Evrópu þar sem stjórnvöld vilja koma í veg fyrir að sveitirnar verði að eignasafni auðmanna sem dvelja þar kannski eina og eina helgi yfir árið.

Þess vegna eru sveitirnar að tapast, rétt eins og sjórinn. Og fyrir því er líklega einnig ríkur meirihluti á Alþingi.