Á­standið á götum flestra borga Banda­ríkjanna er kannski framandi mörgum Ís­lendingum sem hafa hvorki þurft að þola né verða vitni að kerfis­bundinni kyn­þátta­mis­munun. Fáir Ís­lendingar hafa þurft að lifa við stöðuga mis­munun og í stöðugum ótta við mis­beitingu og of­beldi böðla í ein­kennis­búningum. Lík­lega búum við flest við for­réttindi og erum nota­lega blind á þau.

En við getum því miður ekki skýlt okkur á bak við neitt annað en að við eigum hrein­lega ekki nógu mikið af brúnu fólki til að níðast á. Ekkert í ís­lensku sam­fé­lagi bendir til að staðan hér væri til minnsta sóma ef hér fengi að búa fleira fólk af fjöl­breyttari upp­runa. Við þykjumst vera eins­leit þjóð, við teljum okkur það til tekna og við viljum ekki breyta því.

Á árunum 2017 til 2019 bárust tæp­lega 400 kvartanir til nefndar um eftir­lit með lög­reglu. Það sem af er yfir­standandi ári hafa nefndinni borist 37 kvartanir. Ekki liggur fyrir hvernig þeir sem kvarta undan lög­reglunni á Ís­landi eru á litinn. En það liggur sannar­lega fyrir að allt of mörg þessara mála enda í ferli sem ein­kennist af á­huga­leysi og djúpri sann­færingu um að yfir­valdið eigi á­vallt að njóta vafans.

Þær stofnanir sam­fé­lagsins sem eiga að þjónusta þau okkar sem minnst hafa bak­land, völd og fjár­ráð hafa allt­of margar af ein­hverjum á­stæðum á­unnið sér hatur og fyrir­litningu skjól­stæðinga sinna.
Ör­yrkjar hata Trygginga­stofnun ríkisins, sjúkir hata Sjúkra­tryggingar Ís­lands, at­vinnu­lausir hata Vinnu­mála­stofnun og allir sem hafa mann­legar til­finningar hata Út­lendinga­stofnun.

Hverju ætli þetta sæti?

Fyrir­litning á fólki og heilu þjóð­fé­lags­hópunum verður ekki til í tóma­rúmi. Stofnana­menning er raun­veru­legt fyrir­bæri sem mótast á löngum tíma. Slík menning er til staðar innan allra opin­berra stofnana og er ýmist já­kvæð í garð borgaranna eða nei­kvæð. Sumar stofnanir líta á sig sem þjónustu­stofnanir en aðrar ekki. Sam­fé­lagið um­hverfis þessar stofnanir hefur á­hrif á þessa menningu.

Ef al­þingis­menn fá að þrá­stagast á á­hyggjum sínum af kostnaði sam­fé­lagsins af meintu bóta­svindli ó­prúttinna letingja, hljóta stofnanir sem af­greiða bætur að hugsa sinn gang og reyna að sýna við­leitni til að upp­ræta slíka glæpi. Það er af­hjúp­andi að þegar búið er að brjóta allt að því kerfis­bundið gegn lögum um per­sónu­vernd í bar­áttu gegn bóta­svindli ein­stak­linga beitir sama stofnun og sömu stjórn­endur ná­kvæm­lega sömu lögum um per­sónu­vernd til að vernda þau fyrir­tæki sem nýta sér hluta­bóta­leiðina.

Í Banda­ríkjunum hefur svart fólk og brúnt búið við mis­munun og ótta frá því hvíta fólkið nam þar land. Frelsi þeirra er skert á hverjum degi á ótal vegu. Þau eru fá­tækari, fá lé­legri menntun og færri tæki­færi, og þeim stafar stöðug hætta af lög­reglu sem í orði kveðnu til­einkar sér slag­orðið að vernda og þjóna.

Við eigum að styðja bar­áttu Banda­ríkja­manna fyrir aukinni mann­réttinda­vernd í sínu heima­landi. Gerum það á auð­mjúkan hátt og án þeirrar hræsni að okkar eigin bak­garður sé ein­hver lysti­garður jafn­ræðis, réttinda og virðingar fyrir fólki.